144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[13:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég þingmanninum fyrir. Þetta er alveg rétt, stofnunin hefur núna kvarðann 1:50.000 og getur eiginlega samkvæmt lögum ekki haft hann betri eða betri upplausn. En við segjum með frumvarpinu að við ætlum Landmælingum ekki að sinna framleiðslu á gögnum. Margir einkaaðilar hafa enn þá betri gögn en við höfum og opinberar stofnanir, alveg eins og þingmaðurinn gat um varðandi Náttúrufræðistofnun. En ef frumvarpið verður að lögum geta stofnanir ríkisins haft þann ávinning og möguleika að sameinast um kaup og leigu um landupplýsingar af einkaaðilum, svo sem eins og á grundvelli útboða ef þau sameinast um það, þannig að gögnin verði keypt en verði til staðar hjá Landmælingum. Það er hugsunin með þessu. En það er alveg laukrétt sem þingmaðurinn talar um að við höfum skynjað það að þetta er hindrun eins og staðan er í dag og henni viljum við ryðja úr vegi. Þess vegna er nú frumvarpið flutt meðal annars og einnig til að taka undir að gögnin verði gjaldfrjáls svo að þau nýtist einnig almenningi, ekki bara stofnunum ríkisins heldur líka almennt, með því að koma upp landupplýsingagátt.

Það er nú helst vegna þess að þetta snertir stafræn gögn, stafrænar þekjur, að ég er hissa á því að við skulum ekki sjá þingmenn Pírata meira hér inni, en við erum að reyna að nýta okkur þessa stafrænu upplýsingatækni. (Gripið fram í.) En hv. þm. Össur Skarphéðinsson dekkar þetta allt.