144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er algerlega lögmætt sjónarmið sem hv. þingmaður er með. Í reynd snýst það um kjarnaspurningu: Erum við að eyða peningum í hluti sem ekki eru þarfir? Það er kjarnaspurningin. Hv. þingmaður velti því líka upp hvort frumvarpið muni leiða til þess að ríkið fari hugsanlega að kaupa gögn fyrir peninga skattborgaranna sem ekki er beinlínis þörf á. Ég dreg það mjög í efa því ég sé ekki að frumvarpið feli í sér innbyggðan hvata til þess. Ég tel einfaldlega að verkefni sem muni koma upp kalli á kaup á gögnum. Ég nefni þá sérstaklega sem dæmi að við höfum samþykkt rammaáætlun. Þar eru inni alls konar virkjunarkostir, sumir umdeildir en líka kostir sem samþykki er um. Í engan þeirra sem búið er að veita blessun verður ráðist fyrr en búið er að gera nákvæmar úttektir á afleiðingum og lífríkinu öllu ef það liggur ekki þegar fyrir og klárt er að sennilega fæstum þeirra sem eru í bið verður ráðið til lykta nema á grundvelli svona gagna og því nákvæmari sem þau eru, því betri. Sá gagnagrunnur sem fyrir hendi var dugði ekki, því miður. Þannig var staðan strax að verða á því herrans ári 1994 þegar ég fór með þennan málaflokk og kynntist þessu þess vegna. Ég held að þörfin fyrir slíkar upplýsingar muni drífa kaup hins opinbera og sé ekki að það verði til þess að peningum verði eytt í óþarfa. Ég held þvert á móti að ekki dragi úr hvatanum sem nú þegar er á einkamarkaði til að búa til þessi gögn. En það getur vel verið að það dreifi með einhverjum hætti viðskiptum eða breyti samsetningu þeirra, eða geti haft áhrif á einstök fyrirtæki.

En svo vil ég segja af því að hér var vísað í grein eftir Arnar Sigurðsson að ég hafna því alfarið að Landmælingar hafi aldrei á sinni tíð búið til neinar upplýsingar. (Forseti hringir.) Ég minnist þess að á sínum tíma sem umhverfisráðherra var ég að slást fyrir flugpeningum handa þeim til að sú ágæta stofnun gæti farið í það og haldið áfram að mynda landið.