144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega, góða og upplýsandi ræðu og það er fróðlegt fyrir okkur sem ekki þekkjum nákvæmlega starfsemi Landmælinga Íslands, að hlusta á tvo fyrrverandi hæstv. ráðherra og einn núverandi fara málefnalega yfir efnið og af þekkingu og það er vel.

Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður er sammála mér um að líta ekki á verkefnin út frá stofnunum. Það væri upplýsandi að heyra hv. þingmann fara yfir það að þetta er kortagerð sem virðist vera svolítið annað en við hugsuðum fyrir einhverjum árum þegar maður fékk sér kort sem maður notaði þegar maður var á ferð um landið eða í öðrum löndum. Nú er það allt komið inn í tölvur, spjaldtölvurnar og hvað það heitir allt saman og maður notar kortin fyrst og fremst þar. En ég gerði mér ekki grein fyrir að það væru margar aðrar opinberar stofnanir sem eru líka með þetta.

Hv. þingmaður nefndi að það ætti alls ekki að líta á þetta út frá út frá stofnunum, sem ég er alveg sammála. Eftir því sem ég hlusta meira á umræðuna finnst mér þetta snúast um einhvers konar áætlun um hvað hið opinbera eigi að leggja í þegar kemur að kortagerð og þá af hverju. Eftir að vera búinn að hlusta á tvo fyrrverandi hæstv. ráðherra finnst mér í rauninni að það sé engin sérstök þörf fyrir stofnun eins og Landmælingar Íslands. Því meira sem ég hlustaði á hv. þingmenn varð ég sannfærðari um að opna ætti gögn sem væru þá gjaldfrjáls. Það geta alveg verið rök fyrir því, í það minnsta það sem búið er að gera nú þegar og það truflar mig svo sem ekkert þó að bandarískt alþjóðafyrirtæki hafi hagnast á því, við gerum það öll. En mér finnst þetta snúast um hvað við gerum í framtíðinni og hv. þingmaður nefndi að þetta tengdist vegagerð og verklegum framkvæmdum o.s.frv. Mér finnst margt af því alveg hreint og klárt eiga heima hjá þeim aðilum sem nýta sér það, þ.e. að menn greiði fyrir það þegar menn fara í eitthvað sem nýtist almenningi ekki beint. Það þarf alla vega að ganga aðeins lengra til að sannfæra mig um að ríkið eigi að borga fyrir það allt saman.