144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er svolítið bratt hjá hv. þingmanni að draga þær ályktanir af ræðu minni að Landmælingar Íslands séu óþörf stofnun. Eins og fram kemur í ágætri greinargerð með málinu er mikilvægt að þekking sé fyrir hendi á nákvæmlega þeim fræðum sem landupplýsingar eru, að fyrir hendi sé lýsigagnaþjónusta og stafrænar landupplýsingar, skoðunarþjónusta, niðurhalsþjónusta sem snýst um að hægt sé að ná í þessi gögn, vörpunarþjónusta, sem snýst um samhæfingu á gögnum milli stofnana o.s.frv. Þarna er því margs konar sérfræðiþekking sem snýst í raun um öflun, varðveislu og miðlun landupplýsingagagna. Síðan er þróun stofnanakerfis ríkisins önnur umræða sem örugglega má taka og á uppbyggilegan og ágætan hátt.

Mig langar líka til að nefna það hér vegna þess að það er þáttur sem ekki kom sérstaklega fram, en hv. þingmaður vísaði til hinna tvívíðu korta sem við þekkjum öll, sem eru göngukort og landakort sem við erum með í töskunni þegar við förum gangandi eða akandi um landið, það er vaxandi eftirspurn og framboð á þrívíddargögnum, þ.e. möguleikanum á því að geta beinlínis kallað fram upplýsingar um þrívídd eða um landslagið sem slíkt og hvernig manni gangi síðan að ferðast um það, ekki bara að því er varðar landslag heldur ekki síður að því er varðar skipulag. Þeirri aðferðafræði hefur vaxið mjög ásmegin að í staðinn fyrir að horfa á skipulag, og þá bæði aðal- og deiliskipulag, sem tvívítt verkefni, geti menn horft á það sem þrívíð viðfangsefni þannig að þeir geti séð sjálfa sig fyrir sér innan um hús af mismunandi stærðum og gerðum og nálægt mismunandi landslagi o.s.frv. og tekið upplýstar ákvarðanir á grundvelli þess.