144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum í grundvallaratriðum sammála um að það er mikilvægast að horfa á verkefni og viðfangsefni hins opinbera út frá verkefnunum sem slíkum en ekki út frá einhverjum útveggjum stofnana, ég er algerlega sammála því. En hins vegar heyri ég á umræðunni hér, á ræðu og andsvörum hv. þingmanns að það væri góð hugmynd að hann heimsækti Landmælingar Íslands og gerði sér grein fyrir út á hvað öll sú vinna gengur. Þó að Landmælingar Íslands sitji uppi með að vera ríkisstofnun, sem er ekki endilega uppáhaldshugtak hv. þingmanns eins og ég skil hann, er það afskaplega framsýn og metnaðarfull stofnun og það er stofnun sem fengið hefur nýsköpunarverðlaun og verið í fararbroddi oftar en ekki í því að horfa til framtíðar. Hún stendur ekki vörð um trénuð eða gömul vinnubrögð heldur sækir fyrst og fremst fram.

Ég átta mig á því að hv. þingmaður sagði þetta ekki en ég vil brýna hann í því að kynna sér málið og kynna sér Landmælingar Íslands. Ég held að það væri bara ánægjulegt fyrir hann og ekki síður fyrir Landmælingar að fá hann í heimsókn og fara yfir þessi verkefni (GÞÞ: Ertu alveg viss?) vegna þess að þau koma manni á óvart. Þegar ég fór að heimsækja Landmælingar sem ráðherra varð ég uppveðruð yfir því hversu glæsileg stofnun er þarna á ferð og hversu mörg spennandi verkefni eru þarna undir. Maður áttar sig á því að það er mjög mikilvægt að hugsa út fyrir boxið, sem er oftar en ekki gamla kortið í rassvasanum.