144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér þótti leitt að heyra að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson á stundum erfitt með að rata í náttúrunni. Ég hélt að það gilti bara um göngu hans í stjórnmálum. Það eru að vísu margir stöðugt reiðubúnir til að koma þar til leiðbeiningar og hjálpar. Það hef ég mörgum sinnum gert, eins og hv. þingmaður veit, en þó hef ég aldrei uppskorið nema vanþakklæti fyrir það. (Gripið fram í: Hárrétt.) Hins vegar er kannski hægt að ráða bót á þeim skavanka sem hv. þingmaður býr við með því að taka upp framsóknarfæðið. Það felur í sér að borða mikinn blóðmör eða einhvern annan járnríkan mat, vegna þess að það hefur komið í ljós að áttvísi manna í náttúrunni byggist á því hversu mikið er af segulmögnuðum járnögnum í nefi viðkomandi. Ég væri út af fyrir sig alveg til í að skoða nef hv. þingmanns en mæli með því að hann taki upp blóðríkan kost. Svo skulum við sjá hvort það gangi ekki vel og það sé eitthvað annað en að hann sé utan gátta, því að mér virðist sem hann sé allra manna skilningsríkastur, hafi öll skilningarvitin mjög vel opin og er ég honum þakklátur fyrir það.

Í þessari umræðu held ég að margt hafi komið fram sem bendi til þess að hér sé verið að stíga mjög jákvætt skref. Ég er ánægður með þetta frumvarp fyrir tveggja þátta sakir. Í fyrsta lagi er ég glaður með það að núverandi ríkisstjórn heldur áfram því sem síðasta ríkisstjórn hóf í janúar 2013, að bjóða almenningi upp á gögn af þessum toga án gjalds. Þetta var nýmæli sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir beitti sér fyrir sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra á sínum tíma. Það var ekkert sérlega umdeilt en var í anda þeirrar stefnu sem sú ríkisstjórn fylgdi, sem var að reyna að byggja á gagnsæi og kærleika. Það er gleðilegt að núverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fetar þennan stíg og má líta á það sem ákveðið gæðavottorð af hálfu núverandi ríkisstjórnar gagnvart að minnsta kosti þessum þætti í fari síðustu ríkisstjórnar.

Í öðru lagi lít ég náttúrlega á mig í fjarveru Pírata sem heiðurspírata í þessari umræðu og fyrir hönd okkar fagna ég því þegar verið er að gera gögn og skjöl sem ríkið hefur yfir að ráða á netinu aðgengileg öllum þorra almennings án endurgjalds. Það er í anda þeirrar stefnu sem píratar allra flokka reka.

Ég tel líka að með þessu frumvarpi sé stigið heillaspor gagnvart markaðnum. Á sínum tíma voru miklar deilur um það hvort Landmælingar ættu, eins og þær gerðu í þá daga, að afla sér eigin upplýsinga með því að hafa á leigu flugvélar, og stundum fleiri en eina, sem fóru og tóku myndir til að við hefðum þær landupplýsingar sem þarf við að búa til að geta ráðist í margvíslega flóknar ákvarðanir. Á þeim tíma þótti ýmsum sem það ætti að vera á einkamarkaði og ég var þeirrar skoðunar á þeim tíma. Nú er fyrir löngu búið að stíga þetta skref og ég tel að það skref sem hæstv. ráðherra er að taka núna sé enn jákvæðara en þau fyrri. Ég tel að með þeim hætti sem hér er um búið sé alls ekki verið að reka til þess að ráðist verði í einhvers konar ónauðsynleg kaup á upplýsingum. Ég held þvert á móti að þau ráðist einungis af þeirri þörf sem sprettur upp hjá ýmsum stofnunum ríkisins til að byggja á slíkum gögnum, en hitt er algerlega ljóst að það leiðir frekar til þess að það geta orðið til fyrirtæki sem sérhæfa sig beinlínis á markaði við að afla slíkra upplýsinga. Ég skil það svo á hæstv. ráðherra, og hef kannski ekki fylgst nógu vel með þeirri þróun, að á stundum þurfa gögn miklu hærri upplausn en ég hef talað um hér. Ég veit af fornri reynslu Náttúrufræðistofnunar sem taldi sig ekki geta notað minni upplausn en 1:25.000 en veit hins vegar til þess að í mörgum tilvikum þurfa menn að vera miklu nákvæmari og hafa mun ítarlegri upplýsingar á höndum og fara niður í allt að 1:5.000 eða minna, það fer allt eftir eðli verkefna. Þá er að minnsta kosti búið að feykja burt þeirri hindrun sem segja má að hafi legið í gildandi lögum sem felst í því að stofnunin hafi engar skyldur til að hafa yfir að ráða eða láta af höndum gögn, landfræðilegar upplýsingar, sem voru á hærri upplausn en það. Það finnst mér ákaflega jákvætt.

Ég gleðst líka yfir þeim upplýsingum sem koma fram hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur um að þegar þessi breyting var gerð árla 2013 hafi í kjölfarið orðið gróska á grundvelli þess að ný fyrirtæki sem voru að klekjast út eða voru beinlínis stofnsett sem hugmyndir á grundvelli þessara nýju gjaldfrjálsu upplýsinga hófust handa um að framleiða vörur sem margir geta nýtt sér, lítil fyrirtæki sem sum verða aldrei mjög stór en sum geta vaxið og dafnað. Það er mjög jákvætt. Þess vegna hafði ég dálítið gaman af því að í þessari umræðu milli tveggja góðra starfsfélaga minna fannst mér á köflum sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir væri að verja frumvarpið frá sjónarhóli markaðssinna meðan andmælandinn í málinu, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, væri kominn eilítið meira til vinstri, en þá má geta þess að ég skil kannski ekki alltaf nægilega vel þá djúpsálarfræði sem felst í orðum hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Ég gengst alveg fúslega við því. Hins vegar hrökk hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson inn í sitt gamla kunnuglega sjálf þegar hann síðar í næsta umgangi taldi að upplýsingar hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur hefðu eiginlega sýnt honum fram á að leggja mætti stofnunina niður eða búa til einhvers konar innkaupastofnun landupplýsinga sem hugsanlega mætti vista innan Innkaupastofnunar ríkisins, eða guð má vita hvað.

Svo ég skýri það út fyrir hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, og þess vegna hæstv. ráðherrum, af hverju ég tel að í frumvarpinu sé ekki neitt sjálfkrafa hvati til aukinna útgjalda þá vil ég segja eftirfarandi: Í fyrsta lagi er ég sammála því að við eigum alltaf að gæta vel að peningum skattgreiðendanna og ef þetta frumvarp fæli til dæmis í sér einhvern sjálfstæðan hvata fyrir Landmælingar til að fara að hlaða upp upplýsingum, mjög nákvæmum og góðum sem hugsanlega væri ekki þörf fyrir, mætti fallast á þau sjónarmið að það væri einhvers konar ýtni í frumvarpinu til þess. En það er mín reynsla alla vega að þessar upplýsinga hafi alltaf verið aflað vegna þess að kallað hefur verið eftir þeim. Og hvað er það sem kallar eftir þeim? Það eru einhvers konar verkefni. Þau geta verið af margvíslegum toga. Virkjanir, eins og ég nefndi, mörkun verndarsvæða, mörkun þjóðgarða, vegalagnir, mörkin á millum stjórnsýslueininga og síðast en ekki síst má líta svo á að nákvæmur gagnagrunnur landupplýsinga á stafrænu formi sé bókstaflega grunnur einkaeignarréttarins, hann sé grunnur kapítalismans. Það má líta svo á vegna þess að einungis þannig, nema þá með mjög ærnu erfiði upp á gamla mátann, geta menn í fljótu bragði séð á grundvelli hárra korta og hárra upplausna hvar mörk jarðnæðis liggja. Við vitum, um það hafa verið skrifaðar heilar bækur, að akkúrat skorturinn á því í fjarlægum álfum eins og Afríku hefur leitt til þess að þar hafa ekki getað skapast markaðshagkerfi, vegna þess að menn gátu ekki selt lönd — og í þeim parti heimsins var það kannski undirstaða og andlag veða ef menn ætluðu sér að fá lán til einhvers konar rekstrar — vegna þess að ekki var hægt að sýna fram á hvar mörk jarða voru. Þetta vildi ég nú segja.

Þetta skiptir líka máli fyrir okkur varðandi Fasteignaskrá ríkisins og ýmislegt fleira og hefur reyndar verið nefnt sem rök fyrir því að við þyrftum að verða okkur úti um svona. Ég tel sem sagt að það séu verkefni sem spretta upp sem kalla á slíkar upplýsingar. Þá eru þær unnar og þegar þær eru komnar í vörslu ríkisins munu þessi lög segja að almenningur eigi kost á því að fá þau ókeypis. Og þá kemur rúsínan í pylsuendanum, sem ég veit að við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bítum hressilega í með mikilli ánægju: Að sjálfsögðu verður greiðslan fyrir þessa upphaflegu vinnslu af upplýsingum greidd af þeim sem nýttu hana, í langflestum tilvikum af þeim sem standa að verkefninu. Ég er því ekki viss um að þetta leiði til þess þegar upp er staðið að það verði neinn sérstakur kostnaður til viðbótar fyrir ríkið. Ég á við að í því tilviki ef er um að ræða einhvers konar byggingarframkvæmdir er sjálfsagt að byggingaraðilinn og þeir sem að því standa greiði það. Ef um er að ræða upplýsingar sem til dæmis stofnun eins og Náttúrufræðistofnun er að vinna eða þarf til að geta unnið vinnu sínu eru tvenns konar ástæður sem geta rekið hana til þess. Í fyrsta lagi upplýsingar sem hún er að vinna fyrir einhvers konar framkvæmd eins og virkjanir, að meta afleiðingar virkjana á tiltekin landsvæði, eða þá til að sýna fram á að Ísland standi undir kvöðum sem á það hafa verið felldar af alþjóðlegum skuldbindingum. Ég nefni Bernarsamninginn, samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika o.s.frv. Einhvern tíma hefði dregið að því að þurft hefði fjármagn til að verða stofnun út um slíkar upplýsingar og það er akkúrat það sem hefur gerst hér á síðustu árum. Ég ætla ekki að fara að þreyta hv. þingmann á því að juða í honum með IPA-styrki og annað slíkt en stór hluti af IPA-styrkjunum, mig minnir 250 millj. kr. eða meira, átti einmitt að renna til að liðsinna Náttúrufræðistofnun við að standa undir ákveðnum skuldbindingum gagnvart Evrópureglum.

Frú forseti. Ég fer yfir þetta á þennan hátt til að sýna fram á að frá mínum sjónarhóli felur þetta ekki í sér sjálfstæðan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Hitt er annað mál að hugsanlegt er að þeir sem skrifuðu mat fjárlagaskrifstofu ríkisins hugsi þetta öðruvísi til langframa. Þeir fallast á að þetta frumvarp í leiði í sjálfu sér ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð fyrst um sinn en þeir telja að það gæti til langs tíma litið haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þar finnst mér þeim aðeins bresta hið rökfræðilega flug vegna þess að þá eru þeir að tala um að hið opinbera neyðist til að kaupa upplýsingar, sem munu auðvitað kosta peninga, en ég er að færa rök að því að í flestum tilvikum kæmu þeir peningar frá þriðja aðila. Í þeim tilvikum sem svo væri ekki félli sá kostnaður til vegna þess að ríkið stæði undir ýmsum skuldbindingum sem það þarf og hefur axlað.

Það sem skiptir líka máli er að mér sýnist að frumvarpið fari eiginlega langleiðina með að koma í veg fyrir það til dæmis, sem við höfum dæmi um, að menn eða stofnanir á sviði ríkisins eða á sviði annarra opinberra aðila, eins og til að mynda sveitarfélaga, kaupi sömu upplýsingarnar eða láta vinna sömu upplýsingarnar. Ég held að þetta frumvarp, með því að hafa svona opið aðgengi í gegnum tiltekna gátt, fari langt með að loka á þann möguleika.

Þegar upp er staðið finnst mér mjög margt mæla með frumvarpinu. Í fyrsta lagi er verið að halda áfram þeirri stefnu sem fyrri ríkisstjórn markaði um gjaldfrjálsar upplýsingar um landfræðileg gögn á stafrænu formi. Í öðru lagi er verið að undirstrika það prinsipp að ríkið eigi að reyna að opna upplýsingasjóði sína eftir því sem hagsmunir þess leyfa og gerlegt er án þess að nokkrir aðrir almannahagsmunir skaðist. Í þriðja lagi er líklegt að þetta ýti undir grósku meðal smárra fyrirtækja sem geta unnið úr þeim gögnum sem þau fá án afgjalds frá Landmælingum Íslands. Í fjórða lagi sýnist mér líka að þetta leiði til þess að líkur á tvíverknaði, sem felist í því að mismunandi opinberar aðilar kaupa sömu upplýsingar, séu úr sögunni.