144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekkert að vera með sérstakar leiðbeiningar frá hv. þingmanni þegar kemur að pólitíkinni því að sjálfkrafa, bara með því að eiga orðaskipti við mig, færist hann alltaf nær og nær okkur hægri mönnum. Hann var náttúrlega mikill róttæklingur á sínum yngri árum og ég hef séð myndir af honum frá háskólanum og ég þarf ekki annað en líta á myndina til að sjá hvað hv. þingmaður hefur núna náð góðum þroska og færst frá (Gripið fram í.) hinu villta vinstri íslenskra stjórnmála nær miðjunni. Og nú er hv. þingmaður kominn hingað og farinn að útskýra það að vandi Afríku felist í því að þar sé skortur á markaðsbúskap og séreignarrétturinn ekki nógu vel skilgreindur.

Virðulegi forseti. Þetta gerist bara allt eftir orðaskipti okkar hér í þingsalnum, og ég er mjög ánægður að sjá hvaða árangri ég er að ná með hv. þingmann því að þessari vegferð er auðvitað ekki lokið.

Svo að mikilvægari málum, sem er þetta mál, ég held að hv. þingnefnd þurfi að fara yfir þær athugasemdir sem hafa komið fram, sem snúa að því hvort þetta kalli á aukinn kostnað eða ekki. Það er þrátt fyrir allt ekki nægjanlegt, það er sama hvað þingmaðurinn segir og telji að ekki verði aukinn kostnaður hjá hinu opinbera, það er ekki nóg, virðulegi forseti. Við verðum að vita það og við verðum að vita hvað felst í því þegar eitthvað er ókeypis. Það er auðvitað ekkert ókeypis, en þetta snýr að því hvað er gjaldfrjálst, því að framsetning gagnanna er stóra málið. Það er ekki nóg að gögnin séu til staðar. Hver á að borga fyrir það að þau séu fram sett þannig að viðkomandi geti notað þau í hvert skipti?

Þetta snýr að því hvert hlutverk hins opinbera er. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hafa meðvitað og ómeðvitað bent á að það væri skynsamlegt að líta á þetta út frá því sjónarmiði: Hvað ætlar ríkið að gera (Forseti hringir.) og hvernig ætlar það að fjármagna það? Og þau eru meðvitað og ómeðvitað að tala fyrir innkaupastefnu (Forseti hringir.) eða deild innan Innkaupastofnunar ríkisins hvað varðar landmælingar.