144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti, með breytingartillögu, um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Tillagan er lögð fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum sem varðar stöðu kerfisáætlunar Landsnets, sem rædd var hér í gærkvöldi og nú er komin mjög góð sátt um, eins og fyrri hv. ræðumaður sagði hér áðan.

Það segir hér í áliti meiri hlutans:

„Farið hefur vaxandi að raflínur séu lagðar í jörð en almennt eru þær dýrari kostur en loftlínur. Munurinn á kostnaði milli loftlína og jarðstrengja ræðst meðal annars af spennu og aðstæðum að öðru leyti. Ljóst þykir að aukinn kostnaður bitnar á notendum raforku hér á landi. Kallað hefur verið eftir því að stjórnvöld móti stefnu um það í hvaða tilvikum flutningsfyrirtækinu sé rétt að víkja frá hagkvæmustu leið við lagningu raflína líkt og lögin kveða á um.

Í tillögu þessari er kveðið á um atriði sem horfa skuli til við ákvörðun um hvort leggja skuli línu í jörð eða í loft. Í framangreindu frumvarpi sem nefndin hefur einnig haft til umfjöllunar er lagt til að í 9. gr. raforkulaga verði einnig vísað til þess að við uppbyggingu flutningskerfisins skuli tekið tillit til þeirrar stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem hér er til umfjöllunar.“

Hér er rétt að staldra við og benda á breytingartillögurnar tvær sem fylgja þessu meirihlutaáliti. Önnur þeirra varðar lið 1.2 í þingsályktunartillögunni sem fjallar um landshlutakerfi raforku. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í landshlutakerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við jarðstrengi við lagningu raflína eða endurnýjun eldri lagna, að því gefnu að það sé tæknilega raunhæft og að kostnaður við slíka lausn sé ekki meiri en 1,5 sinnum kostnaður við loftlínu.“

Breytingartillagan hljóðar upp á það að í stað „1,5 sinnum“ komi „tvisvar sinnum“, þ.e. jarðstreng er gert hærra undir höfði með því að kostnaður við hann má vera tvisvar sinnum meiri en við loftlínu án þess að honum sé, ef við getum orðað það þannig, hafnað. Til þess að auka vægi jarðstrengja er önnur breytingartillaga, og er vísað í 5. lið í kafla 1.3 í þingsályktunartillögunni, þar sem segir:

„Við samanburð á kostnaði skal miða við núvirtan stofnkostnað og rekstrarkostnað yfir líftíma mannvirkisins.“

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að þessi síðasti málsliður „og rekstrarkostnað yfir líftíma mannvirkisins“ falli brott, þannig að eingöngu sé miðað við núvirtan stofnkostnað jarðstrengs. Að mati meiri hlutans er það nokkuð ljóst að þetta mun verða til þess að hagstæðara verður að leggja jarðstrengi en áður var.

Það eru líka aðrar breytingar sem hafa komið til, t.d. þær að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vörugjöld af jarðstrengjum leggist af þannig að þá mun verð þeirra verða skaplegra en áður var. Samkvæmt þeim fréttum sem borist hafa þá hefur verð á jarðstrengjum einnig lækkað vegna þess að fyrirtæki sem eru ráðandi í framleiðslu þeirra hafa verið dæmd fyrir samráð á markaði, sem okkur Íslendingum er nú að góðu eða illu kunnugt. Lagðar hafa verið á þessi fyrirtæki sektir vegna samráðs sem þau hafa staðið fyrir þannig að verð á jarðstrengjum hefur af þessum sökum einnig lækkað og ætti að gera þá fýsilegri til nota fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni

Í tillögunni er gerður greinarmunur á því hvort um sé að ræða hið lágspennta dreifikerfi raforku, landshlutakerfið eða meginflutningskerfið. Einnig er fjallað um það að í meginflutningskerfinu skuli að meginstefnu nota loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra. Meta skal í hverju tilfelli fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstreng á viðkomandi línuleið eða á afmörkuðum köflum hennar og skulu þá eftirfarandi viðmið réttlæta dýrari kostinn: Í fyrsta lagi ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis, í öðru lagi ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, samanber 53. gr. laga um náttúruvernd, í þriðja lagi ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi, í fjórða lagi ef línuleið er innan þjóðgarðs og í fimmta lagi ef línuleið er innan friðlands sem er verndað af öðrum sökum en sérstaks landslags, samanber 53. gr. laga um náttúruvernd.

Meiri hlutinn bendir á hvað flugöryggi varðar að hann telur að þar falli undir flugöryggistæki, svo sem stefnuvitar og ratsjár. Síðan kemur það að ef kostnaður í tveimur síðastnefndu tilvikunum er ekki meiri en tvisvar sinnum kostnaður við loftlínu, þ.e. eftir breytingartillöguna, á viðkomandi kafla, skal miða við að leggja jarðstreng nema ef það er ekki talið tæknilega mögulegt eða ef loftlína er talin betri kostur með tilliti til umhverfissjónarmiða. Hámarkskostnaður á ekki við um fyrstu þrjá töluliðina, þ.e. ef um er að ræða þéttbýli, friðland verndað vegna sérstaks landslags eða flugvelli þar sem loftlína getur haft áhrif á flugöryggi.

Í þessu sambandi má benda á að það er mjög mikilvægt að þessi tillaga skuli koma fram sem og það frumvarp sem við ræddum síðustu tvo daga og var til lykta leitt hér í gærkvöldi. Bæði þessi mál ættu að verða til þess að hægt sé að hefja frekari og öruggari uppbyggingu dreifikerfis raforku um landið og ekki veitir af, vegna þess að burðarvirkið, eða meginlínulögn okkar um landið, er mjög óburðugt. Það hefur komið fram æ ofan í æ nú undanfarið. Afhendingaröryggi á Norður- og Austurlandi, og Norðausturlandi sérstaklega, er til dæmis mjög ábótavant, sem hefur komið fram í því að menn hafa neyðst til þess að skerða orku bæði til fiskimjölsverksmiðja og stóriðju. Þetta birtist líka í því að orka er ekki tiltæk, eins og til dæmis á Eyjafjarðarsvæðinu. Það kom upp dæmi, sem var nefnt í síðustu viku á fundi Samorku, um að menn þurftu að hafna 120 manna vinnustað á Dalvík vegna þess að það skorti 10 megavött. Hæstv. forseti, ekki var það nú meira en það, það var ekki tiltækt þetta afl; 10 megavött, það kostaði okkur 120 störf á Eyjafjarðarsvæðinu. Einnig hefur verið bent á gagnaver sem stóð til að setja upp á Siglufirði, það var heldur ekki hægt, alla vega ekki að sinni, vegna þess að það skortir orku.

Það má líka nefna að afhendingaröryggi á Suðurnesjum er ekki meira en það að ein þakplata sem fór í loftlínuna þangað sló út flugvellinum, alþjóðaflugvellinum í Keflavík, í tvo til þrjá tíma. Menn flugu þar inn sjónflug og það var bara happ að veður var gott. En svona tæpt er þetta kerfi orðið og þetta er ekki líðandi. Það er ekki líðandi að afhendingaröryggi skuli ekki vera meira en þetta, en síðan tekur steininn úr vegna þess að — eins og margir hér vita, en mér var reyndar ekki kunnugt um fyrr en ég kom inn á þing — Blönduvirkjun hefur aldrei verið keyrð á hámarksafli þar sem ekki er hægt að flytja orkuna frá henni. Það er dónaskapur við náttúruna, það er dónaskapur við skattgreiðendur þessa lands að við skulum taka landsvæði til virkjunar, taka þau undir, og nýta þau svo ekki, þetta er hreinn og klár dónaskapur. Að hugsa sér að þessi virkjun skuli hafa gengið í 23 ár án þess að hafa verið nýtt að fullu, það er náttúrlega þvílíkt fjárhagslegt tjón að það setur að manni hroll við tilhugsunina. Uppbygging dreifikerfisins er mjög mikilvæg og löngu, löngu tímabær.

Samkvæmt tillögunni er, eins og áður er getið, gert ráð fyrir þeim möguleika að á línuleið geti línur verið lagðar í jörð á tilteknum hluta af leiðinni eða alla leiðina. Skoða þarf hvert tilvik sérstaklega þar sem aðstæður eru ólíkar en við mat á því hvaða hluta línu rétt sé að setja í jörð er fyrst og fremst horft til þeirra fimm viðmiða sem koma fram í kafla 1.3 sem réttlæta að ákveðnir hlutar, eða leiðin öll, séu lagðir í jörð þrátt fyrir aukinn kostnað, þetta sem ég rakti hér áðan. Þess þarf líka að geta að jafn fýsilegur kostur og jarðstrengur er þá á hann ekki við alls staðar. Á það hefur verið bent að jarðvegur á Íslandi leiðir ekki mjög vel hita þannig að það er mjög líklegt að þar sem jarðstrengur er lagður þurfi jafnframt að skipta um jarðveg, sem er náttúrlega dýrt.

Helgunaráhrif jarðstrengja eru líka nokkur, það er jú ákveðin breidd sem þarf að rista í jörð til að koma niður jarðstreng og einnig þarf að vera aðgangur að jarðstrengnum með ákveðnu millibili, sem sagt mannvirki sem eru sýnileg. Að auki er viðgerð á jarðstreng miklu flóknari og tímafrekari en viðgerð á loftlínu. Út af þessu dæmi sem ég nefndi áðan með Reykjanesið, þar sem lína fór í sundur um daginn og afl var komið á aftur eftir tvo til þrjá tíma — slík viðgerð mundi taka mun lengri tíma þegar um jarðstreng er að ræða. Þetta eru mínusarnir, eins og maður segir, eða það sem er erfitt við að nota jarðstrengi. Það má líka nefna að umhverfisáhrif af lagningu jarðstrengja geta verið gríðarleg, til dæmis ef lagt er um hraun. Það skilur eftir mikil sár. Loftlínu er út af fyrir sig líka auðveldara að taka niður að lokinni notkun, eða að loknum líftíma, ef við getum orðað það þannig, en að plægja jarðstrenginn upp aftur. En allt eru þetta mál sem eru í örri þróun og það sem við þurfum að gera, þegar við erum að ákveða þessa kosti, er að fara að öllu með gát og huga vel að aðstæðum og að sjálfsögðu þarf að huga að kostnaði og rekstraröryggi.

Í viðbót við það sem fram kom áðan, um niðurfellingu af vörugjöldum af jarðstrengjum, má segja að það er sérstaklega tekið fram í tillögunni að til viðbótar við þau viðmið og meginreglur sem lögð eru til og getið er hér framar skuli ávallt forðast eins og kostur er röskun friðlýstra svæða og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. laga um náttúruvernd. Einnig skal leita leiða til að draga úr sjónrænum áhrifum, halda línulögnum í lágmarki og raska ekki ósnortnu svæði ef aðrar lausnir koma til greina. Er þar um mikilvægar meginreglur að ræða sem ber að hafa að leiðarljósi við uppbyggingu á flutningskerfi raforku.

Meiri hlutinn telur brýnt að áfram fari fram auknar rannsóknir á hagkvæmni. Meiri hlutinn leggur til að ráðherra beiti sér fyrir því að fram fari óháð úttekt á þeim þáttum sem að þessu lúta með tilliti til raforkuverðs, afhendingaröryggis, byggðaþróunar, tæknilegrar þróunar og umhverfiskostnaðar.

Síðan, eins og fram kom í upphafi máls míns, leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„1. Í stað tölunnar ,,1,5“ í kafla 1.2 og 2. mgr. kafla 1.3 komi: tvisvar.

2. Orðin ,,og rekstrarkostnað yfir líftíma mannvirkisins“ í 3. málslið 2. mgr. kafla 1.3 falli brott.“

Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Björt Ólafsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Að öðru leyti rita undir þetta meirihlutaálit, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller og Þórunn Egilsdóttir.