144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

upplýsingar um afnám gjaldeyrishafta.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit er um gríðarlega hagsmuni að ræða, hagsmuni sem velta á því hvernig til tekst við losun hafta, ekki bara hagsmuni samfélagsins og almennings hér á landi heldur geysilega umfangsmikla hagsmuni, m.a. erlendra kröfuhafa bankanna. Það er ekkert launungarmál að þeir aðilar gera ýmislegt til þess að gæta þeirra umfangsmiklu hagsmuna og hafa ráðið fjölmargt fólk til að starfa fyrir sig hér á landi, lögmenn, almannatengslafyrirtæki o.fl. Meðal þess sem þeir leggja hvað mesta áherslu á, að því er manni virðist, er að afla sér upplýsinga um afstöðu stjórnvalda og hvað þau ætlist fyrir í haftamálum til þess að geta þá brugðist við á þann hátt að þeir nái að hámarka hagsmuni sína og um leið hugsanlega draga úr eða veikja stöðu Íslands og samfélagsins samhliða losun hafta.

Þar af leiðandi get ég svarað hv. þingmanni algjörlega afdráttarlaust með það að ég er enn sömu skoðunar og ég var á síðasta ári, eða þegar ég lét þau ummæli falla sem hv. þingmaður vitnaði til, að mikilvægt sé að þessi vinna verði ekki gerð opinber fyrr en hún hefur verið kláruð eða er komin á það stig að ekki sé hætta á að hún verði á einhvern hátt skemmd, unnið á henni eitthvert það tjón sem mundi gera íslenska ríkinu erfiðara fyrir við að leysa úr höftunum á farsælan hátt fyrir allan almenning í landinu.