144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

upplýsingar um afnám gjaldeyrishafta.

[15:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrt svar. En ef markmið okkar er að finna farsæla lausn fyrir almenning í landinu þarf almenningur í landinu þá ekki að vera meðvitaður um það hver sú lausn er? Ég get tekið undir með hæstv. forsætisráðherra, okkar aðalmarkmið á að vera það að tryggja að kjör almennings í landinu skerðist ekki í gegnum það verkefni að losa um höft. Það á að vera okkar leiðarljós í þessu verkefni. En að halda málum leyndum — er ekki betra að hugsa að sókn sé besta vörnin? Að horfa upp á að málum sé þannig háttað að maður lesi um þessa hluti í blöðum — það á ekki bara við um mig, það á við um almenning í landinu — er ekki betra að spila sóknarbolta og gera þetta að eins miklu leyti fyrir opnum tjöldum til þess að skapa sátt? Það er nú það sem ég spurði líka um í fyrri spurningu minni. Þetta er stórt mál, það mun hafa áhrif á kjör almennings. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þurfum við ekki að opna umræðuna um þessi mál til þess að geta skapað sem mesta samstöðu um málið?