144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

upplýsingar um afnám gjaldeyrishafta.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að rétt sé að spila sóknarbolta, eins og það var orðað, í þessu máli. En þegar menn ákveða að spila sóknarbolta byrja þeir ekki á því að kynna þá sóknaráætlun, hvernig þeir hyggist sækja fram, fyrir gagnaðilanum eða liðinu sem verið er að keppa við, svo að við höldum okkur við samlíkinguna.

Þá má kannski spyrja: Er þetta einhver keppni, er um gagnaðila að ræða? Því verð ég að svara játandi, virðulegur forseti, að minnsta kosti varðandi hluta þessara aðila því að þeir hafa sýnt það í störfum sínum að þeir eru fyrst og fremst, og kannski má segja eðlilega, að gæta hagsmuna sinna og reyna að hámarka þá, en staða íslensks samfélags kemur einhvers staðar þar töluvert á eftir.