144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

störf ríkisstjórnarinnar.

[15:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég spurði mjög einfaldrar spurningar. Það eru stórtíðindi að hæstv. forsætisráðherra gat ekki nefnt eitt mál, eitt þingmál, umfram skuldaleiðréttingarfrumvörpin sem ég nefndi sjálfur og var á móti og er umdeilt mál. Hann gat ekki nefnt eitt mál sem hefur komið inn í þingið það sem af er kjörtímabili sem á sér rætur að rekja í mjög metnaðarfullri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eða er lagt fram sem einhvers konar stórt framfaramál að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Þetta er ótrúlegt. Og við horfum nú aldeilis á verkefnin í íslensku samfélagi. Þarf ekki að afnema höft? Þarf ekki að koma á sátt í sjávarútvegi? Eru frumvörp um það á leiðinni hingað inn? Þarf ekki að endurskipuleggja húsnæðismarkaðinn? Er ekki búið að tala um það? Eru þau frumvörp á leiðinni? Ríkisstjórnin talar um átak í lýðheilsu, átak í því að koma upplýsingum til almennings. Eru einhver frumvörp á leiðinni?

Mig langar þá að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða frumvörp (Forseti hringir.) sem sátt er um í ríkisstjórninni og eru framfaramál (Forseti hringir.) byggð á stefnu ríkisstjórnarinnar eru á leiðinni (Forseti hringir.) hingað á vorþingi?