144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

lyklafrumvarp.

[15:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef spurt eftir afdrifum lyklafrumvarpsins sem lofað var, meðal annars vegna þess að nauðungarsölur eru hafnar hjá þeim sem ekki eiga rétt í niðurfærsluleið ríkisstjórnarinnar, t.d. þeim sem kláruðu sinn rétt í 110%-leiðinni svokölluðu. Hæstv. forsætisráðherra hefur talað fyrir því áður að mikilvægt væri að grípa til róttækra aðgerða fyrir það fólk sem er með yfirskuldsett húsnæði og sömuleiðis til að skapa aðhald fyrir fjármálafyrirtæki til framtíðar.

Loks á föstudaginn svaraði hæstv. innanríkisráðherra því til að slíkt frumvarp væri ekki í undirbúningi í innanríkisráðuneytinu og ekki á dagskrá, það hefði ekki orðið niðurstaðan í stjórnarmyndunarviðræðum ríkisstjórnarflokkanna en hún hafi ekki átt aðild að þeim. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra, sem leiddi stjórnarmyndunarviðræðurnar fyrir hönd Framsóknarflokksins, hvernig á því standi að ekki eigi að efna loforðið um lyklafrumvarpið.

Bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn lofuðu kjósendum sínum lyklafrumvarpi. Hvernig gátu tveir stjórnmálaflokkar, sem höfðu eitt og sama kosningaloforðið í þessu efni, myndað ríkisstjórn til fjögurra ára án þess að það yrði sameiginleg niðurstaða þeirra að efna loforðið um lyklafrumvarp?

Hvor stjórnarflokkanna var það þá sem lagðist gegn því að lyklafrumvarpið yrði efnt? Var það Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn gæti efnt það eða Sjálfstæðisflokkurinn sem kom í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn gæti efnt það? Eða voru flokkarnir sammála um að svíkja loforð sitt? Eða meinti hvorugur flokkurinn ekki neitt með loforðinu?