144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

auknar rannsóknarheimildir lögreglu.

[15:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Talsverð umræða hefur verið að undanförnu í samfélaginu um skýrslu ríkislögreglustjóra en þar er farið yfir helstu þætti í þróun mats á hryðjuverkaógn í Evrópu og annars staðar á Norðurlöndunum. Gerðar eru tillögur í þessari skýrslu til stjórnvalda á grundvelli þessa mats. Mig langar því að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvaða skoðun hann hefur á því að styrkja rannsóknarheimildir lögreglu, auka þær eins og ein tillagan hér hljóðar um; en hér segir, með leyfi forseta:

„Hugað verði að lagasetningu um auknar rannsóknarheimildir lögreglu vegna rannsókna brota er beinast gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórn, svo sem hryðjuverkabrotum, samanber X. og XI. kafla almennra hegningarlaga.“

Það er mikilvægt að við fáum það fram hver afstaða forsætisráðherra er, en eins og allir vita vegast hér á þau sjónarmið er snúa að friðhelgi einkalífsins og frelsi einstaklingsins, jafnframt því að okkur ber auðvitað að sinna því mikilvæga verkefni að tryggja öryggi borgaranna. Ég tel mikilvægt að við höldum áfram þessari umræðu. Innanríkisráðherra hefur kynnt að það er verið að starta vinnu í ráðuneytinu til að reyna að kortleggja hvað nákvæmlega er verið að ræða um þegar rætt er um forvirkar rannsóknarheimildir og hvert hugsanlega væri hægt að fara. Hver er skoðun hæstv. forsætisráðherra?