144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt, nú er að hefjast umræða um svokallaðar TiSA-viðræður, Trade in Services Agreement, sem verið hafa í burðarliðnum hátt á þriðja ár. Þær hófust fyrir alvöru eftir mitt ár árið 2013. Ég hafði sett fram spurningar í þinginu sem ég beindi til hæstv. utanríkisráðherra en ákvað að draga þær til baka þegar þingið féllst á að efna til þessarar sérstöku umræðu. Spurningar mínar áttu rót í skýrslu utanríkisráðherra frá því í mars árið 2014 þar sem vísað er til TiSA-viðræðnanna um að unnið væri að hagsmunagreiningu á sviði þjónustuviðskipta í samstarfi ráðuneyta við atvinnulífið og að gert væri ráð fyrir enn frekara samráði við hagsmunaaðila á vinnumarkaði. Ég vildi vita hvernig sú vinna gengi, hverjir fyrrgreindir aðilar á vinnumarkaði væru og hvernig samstarfinu við þá væri hagað. Þá vildi ég vita um skuldbindingar af Íslands hálfu, sérstaklega gagnvart heilbrigðisþjónustunni. Komið hefur fram að ýmsir grunnþættir hennar verði undanþegnir í tilboðum Íslands, en hvað með heilbrigðisþjónustuna í heild sinni og annað sem flokka má undir innviði samfélagsins?

Síðan er kjarnaspurning um hvernig gengið verði endanlega frá samningunum eða niðurstöðunum, hvort þær verði ekki bornar undir Alþingi áður en þær séu festar á blað í samningum.

Það vakti athygli mína í svari skriflegu svari hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurnum hv. þm. Birgittu Jónsdóttur á síðasta ári þar sem spurt var út í þennan þátt sérstaklega þá segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Samningurinn verður gerður opinber strax og hann verður undirritaður …“

Væri ekki nær að gera samninginn opinberan áður en hann verður undirritaður og bera hann undir Alþingi áður en frá honum er gengið með undirskrift íslensks ráðherra?

Í þeim svörum sem ég vísa til hér segir einnig að þessir samningar séu ósköp venjulegir samningar. Svo ég vitni í svar hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Hér er um að ræða hefðbundnar viðskiptaviðræður sem eru í venjubundnu ferli innan íslenskrar stjórnsýslu.“

Það er ekki rétt. Þetta eru engar venjubundnar samningaviðræður. Fyrir það fyrsta eru skuldbindingar óafturkræfar sem gerðar eru fyrir hönd íslensks samfélags. Ef við undirgöngumst þessar skuldbindingar verða þær ekki teknar til baka. Það er sammerkt með TiSA-viðræðunum og GATS-viðræðunum á sínum tíma. Það er því mjög örlagaríkt sem við setjum á blað.

Staðreyndin er sú að ríki sem vilja vinda ofan af þróuninni og draga skuldbindingar sínar til baka eiga það á hættu að verða sóttar og krafðar um skaðabætur. Það gerir þessar viðræður sérstakar.

Annað sem gerir þær sérstakar er leyndin sem hvílir yfir þeim. Ef ekki hefði verið fyrir tilverknað Wikileaks í júní í fyrra hefðum við ekki fengið aðgang að gangi viðræðnanna á þann hátt sem við þó gerðum. Þá fengum við skjölin í hendurnar og enn erum við að fá upplýsingar um gang viðræðna m.a. frá þessum aðilum, þá er ég að vísa sérstaklega til tilboðs eða hvatningar Tyrkja um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar sem rædd var á fundi samningamanna í Genf í september síðastliðnum. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það efni.

Það er sammerkt með GATS, því að þar var það breska stórblaðið Guardian sem upplýsti um viðræðurnar sem hefðu verið leynilegar í aprílmánuði 2002 og við eigum Wikileaks skuld að gjalda fyrir upplýsingarnar.

Annar þáttur snýr að siðferðinu. Hér eru ríkustu þjóðir heimsins að fara á bak við hinn snauða hluta heimsins. 160 ríki eiga aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. 123 þessara ríkja áttu aðild að GATS-viðræðunum. Þegar þær strönduðu vegna óánægju hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar og hins snauða hluta heimsins sem ekki vildi fá viðskiptaöflin og fjármagnsöflin inn á gafl til sín, fóru „Really good Friends of Services“, eins og það er kallað, í leynilegar viðræður. Íslendingar eru (Forseti hringir.) í þeim hópi og ég tel það vera ósiðlegt. Hvað telur (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra?