144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar.

Hin síðustu ár hafa sýnt mjög hagstæða þróun í útflutningi og þjónustu hér á landi og eru þjónustuviðskipti í dag tæplega 40% af heildarviðskiptum Íslands við umheiminn. Útflutningur á þessu sviði er því mikilvægur þáttur í íslensku hagkerfi, sérstaklega þegar kemur að sjóflutningi, orkumálum, ferðaþjónustu, upplýsinga- og tækniþjónustu og hátækni. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands nam útflutningur af þjónustu rúmlega 482 milljörðum á árinu 2013 en innflutningur á þjónustu tæpum 335 milljörðum. Þar af leiðandi er þjónustujöfnuður við útlönd 2013 jákvæður yfir 147 milljarða kr. Áætlaður árið 2014 hefur jákvæður þjónustujöfnuður verið með svipuðu móti. Hér er því um að ræða gríðarlega mikla hagsmuni fyrir íslenskt efnahagslíf.

Í tengslum við TiSA-viðræðurnar hefur utanríkisráðuneytið lagt áherslu á virkt upplýsingaflæði og samráð við fagráðuneyti, undirstofnanir og hagsmunasamtök. Umfang þjónustuviðskipta er slíkt að efni þeirra fellur undir öll ráðuneytin, auk þess sem fyrirtæki á sviði þjónustuviðskipta starfa í flestum geirum atvinnulífsins og tilheyra mismunandi hagsmunasamtökum. Nauðsynlegur þáttur í stefnumótun í samningaviðræðum er að hafa skýra sýn á það á hvaða mörkuðum íslensk fyrirtæki starfa eða sjá framtíðarmarkaði, tegund þjónustuviðskipta, umfang o.s.frv.

Með hliðsjón af því setti ráðuneytið á laggirnar samráðsferli vegna þjónustuviðskipta sem byggir á virkri upplýsingamiðlun og umræðu um þjónustuviðskipti og stöðu samningaviðræðna meðal fagráðuneyta undirstofnana atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og annarra hagsmunasamtaka og samtaka fyrirtækja sem stunda þjónustuviðskipti. Einnig stóð ráðuneytið ásamt innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu fyrir upplýsingafundi um viðræðurnar með ASÍ, BSRB og BHM á fyrri hluta síðasta árs. Þá hafa önnur hagsmunasamtök óskað eftir upplýsingafundi um viðræðurnar sem utanríkisráðuneytið hefur að sjálfsögðu orðið við. Þessum aðilum hefur utanríkisráðuneytið sent reglulega upplýsingar um framgang viðræðnanna.

Vorið 2014 ýtti utanríkisráðuneytið úr vör hagsmunainnköllun í samstarfi við helstu hagsmunasamtök og félög fyrirtækja, m.a. Viðskiptaráðs, Samtök atvinnulífsins, iðnaðarins, Verslunar og þjónustu, ferðaþjónustunnar, ferðamálafyrirtækja og Íslenska jarðvarmaklasanum. Óskað er eftir upplýsingum um viðskiptahagsmuni og hindranir sem fyrirtæki hafa mætt í viðskiptum á erlendum mörkuðum á sviði þjónustuviðskipta. Þá auglýsti ráðuneytið einnig eftir hagsmunainnköllun á heimasíðu sinni og hvatti aðila að koma athugasemdum á framfæri. Því hefur verið um að ræða gegnsætt og opið ferli þar sem öllum er frjálst að senda ábendingar til ráðuneytisins um viðskiptahagsmuni sína. Á grundvelli ofangreinds samráðs hefur nú Alþýðusamband Íslands sent ráðuneytinu umsögn um Ísland og TiSA-viðræðurnar. Hagsmunagreiningin er nú á lokastigum og er áætlað að hún liggi fyrir í byrjun apríl.

Í fyrirspurn hv. þingmanns er einnig spurt hvort til greina komi að semja um markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustu eða einhverra annarra þátta sem flokka má undir samfélagsinnviði. Því til svars er rétt að upplýsa að í tilboði Íslands, sem lagt hefur verið fram á vettvangi TiSA-viðræðnanna, tekst Ísland ekki á hendur neinar skuldbindingar varðandi þjónustu sem annaðhvort hið opinbera veitir eða telst til grunnþjónustu við almenning hér á landi. Ísland hefur þannig ekki í hyggju að taka að sér skuldbindingar sem miða að því að markaðsvæða þá starfsemi sem hið opinbera hefur með höndum í dag eða sem telst til grunnþjónustu við almenning. Jafnframt er í tilboði Íslands sérstaklega áréttað að Ísland takist ekki á hendur neinar skuldbindingar á sviðum heilbrigðistengdrar þjónustu, félagslegrar þjónustu eða menntamála.

Af framangreindu má ljóst vera að af hálfu Íslands er lögð rík áhersla á að engar skuldbindingar verði gefnar varðandi markaðsaðgang fyrir erlenda þjónustuveitendur hvað varðar þá þjónustu sem í dag er í höndum opinberra aðila.

Loks er í fyrirspurn hv. þingmanns spurt að því hvort hugsanlegar samningsniðurstöður verði bornar undir Alþingi áður en þær yrðu undirritaðar. Þar sem við það er miðað að TiSA-samningurinn muni ekki kalla á lagabreytingar hér á landi er samþykki Alþingis ekki áskilið til að samningur verði fullgiltur af hálfu Íslands, en í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir að samþykki Alþingis sé þörf þegar samningar við önnur ríki sem fela í sér afsal eða kvaðir á landi, landhelgi eða kalla á lagabreytingar. Þrátt fyrir að samningurinn muni ekki kalla á lagabreytingar tel ég engu að síður eðlilegt að Alþingi hafi aðkomu að málinu áður en samningurinn verður fullgiltur af Íslands hálfu. Það væri gert með sama hætti og tíðkast hefur varðandi fríverslunarsamninga sem Ísland gerist aðili að, þ.e. að ríkisstjórn leggi fram þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins. Auk þess verður utanríkismálanefnd áfram haldið upplýstri um gang mála og henni jafnharðan kynnt fyrirliggjandi samningsdrög.

Ég sé hins vegar ekki sérstaka þörf á því að málið verði borið undir Alþingi áður en til undirritunar samningsins kemur. Eins og áður segir er ekki gert ráð fyrir að samningurinn muni kalla á lagabreytingar hér á landi og samræmist það ekki stjórnskipulegum venjum hér á landi að Alþingi taki afstöðu til hans áður hann er undirritaður.

Tel ég að markmið hv. þingmanns sé fyllilega náð með því að hafa (Forseti hringir.) náið samráð við utanríkismálanefnd, sem ég hef nefnt og ég ítreka að ekki er um að ræða (Forseti hringir.) að verið er að semja um þá grunnviði sem hv. þingmaður spurði hér um.