144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Sem fyrr stígur hv. þm. Ögmundur Jónasson ölduna fyrir okkur hin gagnvart ásælni heimskapítalsins. Ég segi hreinskilnislega að það er þægilegt að vera í því örugga skjóli. Þessi barátta hv. þingmanns gegn TiSA-samningnum er í framhaldi af áralangri baráttu hans á sínum tíma með tilstyrk verkalýðshreyfingarinnar og margra fleiri gegn þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem hefði, eins og hún lá fyrir í fyrstu, getað leitt til þess að ýta undir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Ég segi tvennt algjörlega skýrt: Ég er á móti einkavæðingu heilbrigðiskerfisins en ég er með frjálsri verslun. Spurningin er þá hvort sá samningur sem hér um ræðir stangast með einhverjum hætti á við til dæmis viðhorf mín sem jafnaðarmanns. Ég tel svo alls ekki vera, ég tel að svör hæstv. ráðherra séu fullkomlega skýr. Ég vil segja það líka, því að hv. málshefjandi hefur talað um pukur og leynd og það hafa fleiri þingmenn gert, að ekki er hægt að ásaka þennan hæstv. utanríkisráðherra fyrir neitt slíkt í tengslum við þetta mál og í sjálfu sér ekki önnur heldur. Ég tel að utanríkisráðuneytið sé til fyrirmyndar gagnvart öðrum ráðuneytum að því er varðar það að koma upplýsingum á framfæri.

Varðandi þetta tiltölulega merka mál sem liggur fyrir hér til umræðu er það algjörlega skýrt að ráðuneytið hefur alveg frá fyrstu dögum lagt sig í framkróka við að upplýsa. Það hefur í fyrsta lagi viðhaft lofsvert samráð, í öðru lagi hefur það lagt fram alla hluti á netinu þannig að almenningur hefur getað fylgst með þessu. Það sem hins vegar er hægt að benda á er að einstök ríki sem eiga aðild að þessu, eins og Bandaríkin, hafa ekki viljað upplýsa um sín eigin markmið og það er bara þeirra mál. Ég get ekki fyrir krafist þess hönd Íslands að við fáum að upplýsa um það, en við Íslendingar, alveg eins og Svisslendingar, höfum má segja verið í fararbroddi varðandi upplýsingar vegna þess að bæði þessi ríki hafa upplýst til þessa (Forseti hringir.) um hvert einasta skref sitt í málinu.