144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[16:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að við hefðum aldrei vitað af þessum stórfurðulegu hugmyndum sem koma frá Tyrkjum um heilbrigðiskerfið og lúmska einkavæðingu á því ef ekki hefði komið til þess að gögnum úr þessum viðræðum var lekið. Við hefðum aldrei vitað um tilraunirnar um löggjöf í kringum fjármálafyrirtæki ef þeim gögnum hefði ekki verið lekið til Wikileaks. Þessar umræður mundu sennilega ekki eiga sér stað hér á Alþingi ef þessum upplýsingum hefði ekki verið komið til uppljóstrara, ef einhver hefði ekki þorað að miðla þessum upplýsingum áfram. Við mundum vera algjörlega blind hér annars. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Ef þetta hefði ekki komið fram væri ekki núna verið að taka ákvörðun um að taka út tillögur um einkavæðingu og frekari inngrip í opinbera geirann, sem sagt allt sem lýtur að heilbrigðiskerfi og öðrum málefnum sem eiga að heyra undir ríkið. Mér finnst við ekki geta bara skautað fram hjá því. Auðvitað er fólk áhyggjufullt þegar gerðar eru svo alvarlegar tilraunir eins og fram kom í fyrsta lekanum, þ.e. tilraun til að gíra allt aftur til baka eins og það var fyrir stóra fjármagnshrunið í Evrópu og Bandaríkjunum 2008, sem við fundum svo sannarlega fyrir. Það má alls ekki gera lítið úr alvarleika þess að hér fara fram umræður og samræður fyrir okkar hönd sem eru bundnar leynd. Öll gögn, öll fylgigögn í tengslum við þessa samninga eru bundin leynd til fimm ára eftir að samningunum lýkur. Það finnst mér alvarlegt (Forseti hringir.) og ég óska eftir því að við beitum okkur frekar fyrir því að opna samningsgerðina.