144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

uppbygging húsnæðis Landspítala.

557. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja mál mitt á að fagna því innilega að framkvæmdir séu að hefjast við uppbyggingu á húsnæði Landspítala. Það má ekki seinna vera og ég endurtek ánægju mína með að þetta sé að hefjast. Nú er það svo að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur falið stjórn nýja Landspítalans, eða þess lögaðila sem sér um þennan undirbúning, undirbúning á útboði á fullnaðarhönnun meðferðarkjarna Landspítalans og til stendur útboð á framkvæmdum til að byggja nýtt sjúkrahótel.

Mig langar til að fá með þessari fyrirspurn nánari upplýsingar um hvort fyrir liggi tímasett áætlun um uppbyggingu húsnæðis Landspítala þannig að allir viti, hvort sem þeir eru íbúar í þessu landi, stjórnmálamenn eða starfsfólk heilbrigðiskerfisins, hvað er í vændum og hver áætlunin er.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hvort fyrir liggi áætlun um fjármögnun uppbyggingarinnar. Það hefur vakið nokkra furðu að ráðherra telji það vænlegast til að fjármagna uppbygginguna að selja eignir ríkisins. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er rúmir 50 milljarðar. Það er um það bil sú fjárhæð sem fór í að lækka skuldir 30% af tekjuhæstu heimilum landsins, þau fengu 51 milljarð í stóru millifærslunni, þessi tekjuhæstu heimili. Það er líka merkilegt í ljósi þess að ríkisstjórnin telur sig ekki þurfa að leggja á auðlegðarskatt en 5% Íslendinga eiga 30% af heildareignum og gætu því kannski greitt svolítinn eignarskatt. Þá hafa á þessu kjörtímabili veiðigjöldin verið lækkuð og lækkaður var virðisaukaskattur til ferðamanna og vörugjöld voru afnumin. Ég fer í þennan upplestur hérna því að síðustu tæp tvö árin hafa sýnt okkur að ríkisstjórnin var óhrædd við að létta gjöldum af ýmsum sem hefðu alveg getað borið þau og þar af leiðandi finnst mér það skjóta skökku við að til að tryggja hér almennilegt nútímalegt heilbrigðiskerfi þurfi að selja eignir ríkissjóðs. Ég vildi heyra hvort lægi fyrir áætlun um fjármagn til uppbyggingarinnar.