144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

uppbygging húsnæðis Landspítala.

557. mál
[16:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi til mín tveimur spurningum, annars vegar hvort fyrir liggi tímasett áætlun um uppbyggingu húsnæðis Landspítalans, í öðru lagi hvort fyrir liggi áætlun um fjármögnun uppbyggingarinnar.

Fyrir liggur tímasett áætlun um uppbyggingu húsnæðis Landspítalans við Hringbraut og það er áætlun sem stjórnendur og stjórn Nýja Landspítalans ohf. hefur gert. Sú áætlun tekur til átta ára og spannar árin 2015–2022. Forhönnun bygginga í fyrsta áfanga er lokið.

Á 143. löggjafarþingi samþykkti Alþingi samhljóða þingsályktun um að þingið álykti að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefði verið tryggð. Skemmst er frá því að segja að á fjárlögum þessa árs samþykkti Alþingi að veita 945 millj. kr. til uppbyggingar þjóðarsjúkrahússins og ég hef falið Nýjum Landspítala ohf. að hefja undirbúning útboðs á fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans, ljúka fullnaðarhönnun sjúkrahótels og bjóða út verkframkvæmdir við gatna- og lóðagerð sjúkrahótels ásamt byggingu þess. Vinna við fullnaðarhönnun sjúkrahótelsins stendur yfir og verða byggingarnefndarteikningar tilbúnar innan fárra vikna.

Með breytingum á lögum um nýja Landspítalann, nr. 64/2010, sem samþykkt voru á Alþingi 28. mars 2013 var skýrt kveðið á um þrjú atriði. Í fyrsta lagi; markmið og tilgangur Nýs Landspítala ohf. er að standa að nauðsynlegum undirbúningi útboðs byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Í öðru lagi; um fullnaðarhönnun, byggingu og útboð hins nýja spítala skulu gilda lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001. Í þriðja lagi er ráðherra heimilt að ákveða að tilteknir skýrt afmarkaðir minni byggingarhlutar, eða byggingar, séu boðnir út í formi langtímaleigu.

Sökum þessa liggur það fyrir í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, að um áframhaldandi fullnaðarhönnun og verkframkvæmdir í kjölfarið skulu vera í samræmi við fjárheimildir sem Alþingi ákvarðar hverju sinni í fjárlögum. Það er ófrávíkjanlegt. Enn fremur liggur yfirlýsing stjórnvalda fyrir sem gerð var með forustu lækna í kjölfar kjarasamninga í janúarmánuði um að starfsaðstaðan verði bætt á sjúkrahúsinu með byggingu nýs Landspítala og endurnýjun tækja. Ég hef eindregið þá skoðun uppi að til þessa verks eigi að fara, en eins og ég gat um áðan ræðst framvindan af þeim fjárframlögum sem Alþingi ákvarðar verkinu hverju sinni.