144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

uppbygging húsnæðis Landspítala.

557. mál
[16:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er sannarlega fagnaðarefni að komin skuli vera hreyfing á þetta mál. Þar held ég að megi fyrst og síðast þakka Alþingi Íslendinga sem hefur verið vakandi og sofandi yfir þessu máli. Eins og menn muna fannst manni nú skorta töluvert upp á viljann hjá hæstv. ríkisstjórn til þess að ráðast í þetta verk þegar hún tók sín fyrstu skref í þessu máli. Sem betur fer má segja að umræður hér á þinginu hafi hreyft við henni.

Nú liggur fyrir framkvæmdaáætlun, og eins og hæstv. ráðherra sagði: Það fer eftir því hvað Alþingi ver til framkvæmdanna hvernig framvindan verður. Ég spyr nú í fullri einlægni, frú forseti: Þarf endilega að gera þetta mál frekara bitbeini? Við vitum að á sama tíma og fullkomin sátt er um að ráðast í framkvæmdina á Alþingi Íslendinga er ósætti um hvaða leið á að fara til fjármögnunar.

Ég segi fyrir mig að ég vil mikið til vinna til að hafa alla með í þeim leiðangri og spyr þess vegna eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon: Geta menn ekki farið einhverja aðra leið en þá að tengja þetta við sölu Landsbankans, eins og fram hefur komið? Ef menn vilja selja Landsbankann þá leggja þeir bara í sérstakan leiðangur út af því. (Forseti hringir.) En förum aðra leið í þessu, og eins og fram hefur komið og sagt var við umræður um málið í fyrra: (Forseti hringir.) Við sjáum að bara arðurinn af bönkunum er miklu meiri en menn gerðu ráð fyrir. Af hverju notum við hann ekki?