144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

uppbygging húsnæðis Landspítala.

557. mál
[16:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur verið. Ég saknaði þess að hæstv. ráðherra svaraði eiginlega ekki spurningu minni þar sem ég velti fyrir mér áætlun um fjármögnun uppbyggingarinnar. Hann hefur sjálfur nefnt eignasölu í viðtölum og er auðheyrt á þeim þingmönnum sem hér hafa talað að það fellur í grýttan jarðveg, enda eru nægir fjármunir til uppbyggingar sjúkrahússins ef vilji er til að raða því framarlega í hinni pólitísku forgangsröðun.

Hér nefndu bæði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Össur Skarphéðinsson arðinn af Landsbankanum, arðgreiðslur þaðan, sem eru heilmiklar. Tekjur ríkissjóðs eru að aukast því að við erum að ná okkur upp úr þeirri alvarlegu efnahagslægð sem skapaðist með hruni fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins. Það er því svigrúm til að finna þá fjármuni sem þarf til verksins. Ég geri ekki lítið úr því að þetta er stórframkvæmd, þetta er sem sagt stórkostleg framkvæmd, en á þeim átta árum sem er áætlaður tími fyrir verkið, og á þessu ári fer um tæpur milljarður í það, eru það ekki mjög margir milljarðar á ári sem leggja þarf til af tekjum ríkissjóðs í þessa framkvæmd. En ávinningurinn er óumdeildur og það er óþarfi að búa til deilur um eignasölu í tengslum við þessa mikilvægu framkvæmd.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra í anda þess sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson spurði: Er ekki lag að við í velferðarnefnd leggjum til þverpólitíska nefnd sem vinni að fjármögnunarleiðum með ráðherra? Þessa framkvæmd þarf að setja inn í langtímaáætlun ríkisfjármála svo hægt sé að gera ráð fyrir henni árlega.