144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

uppbygging húsnæðis Landspítala.

557. mál
[16:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mikla og stóra mál. Þegar hér er nefnt að verið hafi hik í aðgerðum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í upphafi þessa máls vil ég nú benda hv. þingmönnum á að það var ekki króna á fjárlögum ársins 2013 til þessara framkvæmda, þannig að svigrúmið til þess að taka til verkefna á þessu sviði var nú ekki ýkja rúmt, alla vega ekki fyrsta hálfa ár þessarar ríkisstjórnar. En síðan kom fyrsta beina fjárveitingin inn á árinu 2014, í fjárlögum það ár, upp á 100 millj. kr., og fyrir það velti ég verkinu af stað og fór af stað með undirbúninginn að sjúkrahótelinu sem kemur síðan inn í fjárlagagerð ársins 2015.

Ég minni þingmenn á að samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem fyrir liggur hjá Nýja Landspítalanum ohf. er þunginn ekki svo ýkja mikill í fjármögnun verksins fyrstu árin, á þessari átta ára áætlun þeirra. Árin 2018, 2019, eru hvað þyngst, minnir mig, rúmir 10 milljarðar, ef ég man þetta rétt. Það er kannski á þeim tímapunktum sem menn geta lent í því að afkoman ríkissjóðs hvort ár geti ekki leyft fullnaðarfjármögnun þar út. Og það er í tengslum við það sem ég hef sagt opinberlega að á slíkum tímum gætum við rætt mögulega eignasölu, en það er ekkert ákveðið í því efni, alls ekki.

Það er bara sjálfsagt að fara yfir það, en ég lít svo á að við mörkun verkefna á langtímaáætlun sé fjárlaganefnd hinn þverpólitíski vettvangur þar sem þingið hefur beina aðkomu að því að skammta fjármuni inn í þetta þarfa verk. Þar eiga allir flokkar sinn fulltrúa og þar eru hlutirnir settir líka í lengri tíma samhengi.