144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

endurhæfingarþjónusta við aldraða.

558. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi endurhæfingarþjónustu við aldraða sem búa heima. Í síðustu viku var hér sérstök umræða um stöðu hjúkrunarheimilismála þar sem málshefjandi var hv. þm. Helgi Hjörvar. Það er annar angi af þeirri umræðu. Segja má að hvatinn að henni hafi verið sá að samningur við Hrafnistu um rekstur endurhæfingartíma fyrir aldraða sem búa heima var ekki endurnýjaður. Ég er ekki sérstakur málsvari þess hjúkrunarheimilis sérstaklega þó að það sé ágætis hjúkrunarheimili og rekið víða. Um er að ræða 20 rými sem nýtt hafa verið fyrir fólk sem býr heima til þess að lengja þann tíma sem það getur haldið heimili sjálft. Fólkið getur komið þarna inn tímabundið til þess að fá þjálfun og aðstoð til þess að þurfa ekki að flytjast inn á hjúkrunarheimili. Það er sérstaklega mikilvægt að huga að því hér á höfuðborgarsvæðinu því að hér er mikill skortur á hjúkrunarrýmum, sjúklingarnir sem koma inn eru þyngri og meðallegutíminn almennt styttri. Það er því mjög mikil þörf fyrir endurhæfingu fyrir þá sem búa heima.

Af hverju var samningurinn ekki endurnýjaður? Og jafnframt, sem er eiginlega mikilvægari spurning: Stendur til að draga úr endurhæfingarþjónustu sem þessari til frambúðar eða horfir ráðherra til einhvers annars?

Síðan langaði mig til þess að vita hver stefna hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnarinnar væri varðandi endurhæfingarþjónustu við aldraða sem búa heima. Það eru allir sammála um að það er best, fyrir nú utan að það er ódýrast að fólk búi sem lengst heima. Ég held að við getum öll sett okkur í þau spor að við mundum vilja búa heima hjá okkur eins lengi og kostur er fyrir utan örfá undantekningartilfelli vegna einhverra aðstæðna, að fólki finnst það erfitt.

Öldruðum fer nú mjög fjölgandi, ekki síst þeim sem eru yfir 80 ára, sem eru sá hópur sem helst kemur inn í heilbrigðiskerfið. Það er því mjög mikilvægt að vita hver stefnan er varðandi þessa endurhæfingarþjónustu og að tryggt sé að ekki sé verið að draga úr henni heldur þvert á móti auka hana til þess að vinna að þeim markmiðum að fólk geti fengið að búa heima hjá sér í stað þess að þurfa að fara inn á hjúkrunarheimili til frambúðar.