144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

ljósleiðarar.

520. mál
[17:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Einkavæðing grunnfjarskiptanetsins og innleiðing samkeppni inn í þann geira voru einhver hrapallegustu mistök sem lengi hafa orðið í byggðamálum og fleira tilliti hér í landinu. Það er að sjálfsögðu jákvætt að settir séu fjármunir til hliðar til að ráðast í úrbætur á þessu sviði, en það bráðliggur á að móta skýran ramma um meðferð þeirra fjármuna og kynna hann sveitarfélögunum. Þangað til er hætta á því að biðstaða skapist og hún er þegar uppi, þ.e. sveitarfélög halda að sér höndum í óvissu um það hvernig regluverkið verði og þora ekki að hætta fjármunum í óvissu um hvað þau kynnu að fá endurgreitt úr opinberum sjóðum.

Ég fæ ekki annað séð en að reglurnar verði að taka tillit til þess hvernig farið verður með þetta almennt í framtíðinni, en líka til einhvers konar uppgjörs á sambærilegum jafnræðisgrundvelli gagnvart þeim aðilum sem þegar hafa ráðist í mikinn kostnað. Dæmi eru um sveitarfélög sem hafa ein og óstudd lagt ljósleiðara og borgað hann alfarið sjálf þar sem fullkominn markaðsbrestur var. (Forseti hringir.) Þetta regluverk verður að líta dagsins ljós sem fyrst og ég legg líka áherslu á kynningu þess þannig að sveitarstjórnarmenn og aðrir slíkir viti að hverju þeir ganga sem allra fyrst.