144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

ljósleiðarar.

520. mál
[17:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það er mitt verkefni að útskýra hvaða reglur gilda þegar kemur að úthlutun úr fjarskiptasjóði. Að því beindist spurningin og því var að sjálfsögðu svarað. Síðan er það þannig að inn í þetta blandast, eins og hv. fyrirspyrjandi bendir réttilega á, þau áform ríkisstjórnarinnar að fara í stóreflingu í fjarskiptamálum, það blandast auðvitað inn í þetta. En það er ófært fyrir innanríkisráðherra að fara að lýsa yfir tillögum sem eru ekki komnar fram. Það er nokkuð sem ég að minnsta kosti hef bara ekki gáfur til að gera, að lýsa tillögum sem ég hef ekki séð. Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er hins vegar skýr að þessu leyti en við búum hins vegar við ákveðið regluverk sem hér var gert að umtalsefni.

Ég tek undir það með hv. þingmönnum að það er mjög mikilvægt að við sjáum til lands í þessu hratt og ég veit að sveitarfélög víða um land og íbúar á Íslandi eru óþreyjufullir í því að koma þessum hlutum áfram. Ég vonast til þess að þegar við erum komin með tillögur sem við getum unnið með, og þegar við sjáum hver kostnaðurinn af þessu verður og hver framkvæmdaáætlun gæti orðið, sé okkur ekkert að vanbúnaði að ganga frá þeim reglum sem þarf til að við getum farið í þetta mikilvæga verkefni.

Ég fullyrði að ef vel tekst til þá getur verið um eitt brýnasta hagsmunamál okkar landsmanna að ræða, þ.e. að við náum að setja fjarskiptamálin í þann forgang sem við þurfum að gera. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þeirra innlegg í þetta mál og hvatningu mér til handa. Ég tek það með mér til baka inn í ráðuneytið og inn í þá stefnumörkun sem fram undan er.