144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli.

521. mál
[17:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og öllum er kunnugt um hófust framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng með fyrstu sprengjunni 3. júlí 2013. Að þessu verkefni hafði verið unnið allt síðasta kjörtímabil og sem betur fer komst það í gang um þetta leyti. Framkvæmdir eru í fullum gangi þó svo, eins og öllum er kunnugt um, aðeins hafi slegið í bakseglin Eyjafjarðarmegin út af miklu og heitu vatni sem þar kom fram. Ég hef fulla trú á að það mál leysist og er fullviss um að svo verður. Það eina sem út úr því kemur er að framkvæmdir við opnun jarðganganna dragast kannski um fimm eða sex mánuði, þannig að hún verður sumarið 2017 en ekki haustið 2016.

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram spurningar til hæstv. innanríkisráðherra vegna þess að alltaf var reiknað með að svo og svo mikið af hratinu sem kemur úr göngunum Eyjafjarðarmegin yrði notað til að undirbúa nýtt flughlað við Akureyrarflugvöll. Það var beinlínis skrifað inn í útboðsgögnin að svo yrði, að efnið yrði tekið á haugsvæðinu Eyjafjarðarmegin og flutt inn að vellinum. Síðan hefur það auðvitað verið þannig að ákveðin togstreita hefur verið í gangi. Isavia, sem rekur völlinn, hefur sagt: Já, við erum tilbúin að taka við þessu efni og leggja það í nýtt flughlað. Við skulum hafa í huga að flugstæði fyrir framan flugstöðina er til bráðabirgða, það er á undanþágu, vélar mega ekki standa svo nálægt brautinni, og þess vegna er brýnt að gera nýtt flughlað.

Það var það sem lá á bak við það hjá okkur þegar þetta var sett inn í útboðsgögnin, fyrir utan það að þetta var ákveðin leið til að losna við hratið, en oft og tíðum er það mesta vandamálið við að grafa jarðgöng hvað á að gera við hratið. En síðan hefur ekkert gerst. Ekkert efni hefur verið flutt. Isavia segir: Við erum tilbúin að taka við efninu en við höfum engan pening til að flytja það.

Það var alltaf í huga þeirra sem unnu að þessu máli að finna yrði lausn á þessu þegar framkvæmdir hæfust og setja þarna inn fjármuni til að gera það, því var lofað. Ég var til dæmis hvattur til þess að flytja ekki breytingartillögu við 3. umr. fjárlaga 2014 vegna þess að ég var fullvissaður um það af einum ráðherra að málið væri komið í höfn, fjármögnun væri tryggð og þetta færi bara í gang. En eins og ég segi — ekkert hefur gerst enn þá.

Það var farið að tefja mikið fyrir hvað efnið hlóðst mikið upp þarna Akureyrarmegin og var ekki flutt inn úr. Á næstu vikum, þegar búið verður hemja aðeins meira vatn og sprengingar hefjast aftur Eyjafjarðarmegin, fer þetta vonandi að tikka inn af miklum krafti.

Spurningar mínar eru tvær:

Hver er staða mála varðandi flutning og móttöku á efni úr Vaðlaheiðargöngum í nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli?

Og í öðru lagi:

Eru öll tilskilin leyfi til staðar og fjármögnun tryggð?

Það eru spurningar mínar til hæstv. innanríkisráðherra að þessu sinni.