144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli.

521. mál
[17:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er svolítið hugsi yfir því hvort skilja beri svör hæstv. ráðherra á þann veg að ekki sé gert ráð fyrir þessari framkvæmd í væntanlegri samgönguáætlun sem hlýtur að fara að líta dagsins ljós hér á Alþingi. Þess vegna var spurning mín meðal annars sett fram, um hvort fjármögnun væri tryggð.

Allt saman hvað varðar umhverfismatið og framkvæmdaleyfið frá Akureyrarbæ vissi ég að væri til staðar. Það var gert um leið, á mestu erfiðleikaárum okkar efnahagslega, og flugbrautin var lengd, fyrir töluvert mikla peninga og alltaf var horft á þetta í leiðinni. En það er líka rétt að hafa í huga að við lengingu flugbrautarinnar var mjög erfitt að fá leyfi til að fara í efnisnámur í Eyjafirði, til að fá efni í stækkunina. Ég er ekki alveg viss um að ef þessu tækifæri verður sleppt — til að nota þetta efni sem kemur þarna út, fyrir utan það að þetta er mjög gott efni — fáum við leyfi í næsta nágrenni til að taka efni þegar farið verður í þetta verkefni og það verður líka miklu dýrara.

Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með þetta svar. Ég hélt að ráðherra mundi segja: Já, þetta verkefni er tryggt inn í væntanlegri samgönguáætlun með þeim peningum sem þarf til að flytja efnið. Hæstv. ráðherra segir að 800 milljónir kosti þetta allt saman, en við erum að tala um fyrstu aðgerðina, 1. áfanga, þ.e. að koma efninu fyrir, það þarf að síga í langan tíma. Ég vona að þær 50 milljónir sem komu þarna inn og 30 milljónir sem síðasta ríkisstjórn lagði í þetta verkefni dugi til þess að hefja framkvæmdir við þetta.

Virðulegi forseti. Þegar (Forseti hringir.) sprengingar hefjast aftur Eyjafjarðarmegin er mjög mikilvægt að þá strax verði hægt að taka efnið og flytja það inn að Akureyrarflugvelli.