144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Gulir strætóar aka nú um strætin með svart yfirvaraskegg. Mottumars er hafinn. Þriðji hver karlmaður getur búist við að fá krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni og algengustu krabbamein karla eru í blöðruhálskirtli, ristli og lungum. Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir krabbameinsskrár og prófessor í meinafræði við læknadeild Háskóla Íslands, hefur rannsakað ristilkrabbamein í mörg ár. Í viðtali í Fréttatímanum fyrir helgi segir hann að flestar rannsóknir bendi til þess að mikla aukningu ristilkrabbameins megi rekja til vestræns mataræðis, offitu og hreyfingarleysis.

Jón vill að hafin verði skipuleg leit að ristilkrabbameini og haldið verði utan um allar niðurstöður með miðlægri skráningu. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu á liðnu vorþingi um að hefja skimanir á blöðruhálskrabbameini, en einnig er mikilvægt að hefja skimun á ristil- og endaþarmskrabbameini sem fyrst. Sýnt hefur verið fram á að slík skimun lækki dánartíðni hjá körlum um 73% og hjá konum um 82%. Rannsóknir sýna að leit að ristilkrabbameini er hagkvæm forvarnaíhlutun. Þessum sömu aðferðum beita heilbrigðisyfirvöld víða í vaxandi mæli þegar teknar eru ákvarðanir um forgangsröðun í heilbrigðismálum. Árlega kostar tæplega 1,5 milljarða að greina og meðhöndla þá rúmlega 130 einstaklinga sem greinast með ristilkrabbamein. Þá er ótalinn sá kostnaður sem fellur til vegna vinnutaps, minni þjóðfélagslegrar framleiðni einstaklinga og afleiðna þess fyrir þjóðfélagið. Árlegur kostnaður við skimun hjá skilgreindum aldurshópum hér á Íslandi hefur verið áætlaður um 100 millj. kr. 1,5 milljarðar á móti 100 millj. kr., það er dágóður munur. Heilbrigðisráðherra vinnur nú að gerð krabbameinsáætlunar sem verður kynnt á næstu missirum. Ég vona að skimun (Forseti hringir.) á ristil- og endaþarmskrabbameini verði hluti af þeirri áætlun.