144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Verkstjórn eða verkleysi ríkisstjórnarinnar var hér tilefni umræðna í gær af hálfu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Það verður að segjast að hæstv. forsætisráðherra brást ekkert sérstaklega vel við, taldi málflutning þingmannsins furðulegan, sakaði hann um að æpa hér, þótt hv. þingmaður væri tiltölulega rólegur virtist mér vera í ræðustólnum, en þannig upplifði hæstv. forsætisráðherra hann og reyndar taldi svo afrek sinnar ríkisstjórnar algerlega ómæld þótt hann gæti ekki nefnt dæmi um frumkvæðismál sem hún hefði komið fram með.

Ég verð að vísu að gera þá játningu að ég er miklu meira feginn yfir verkleysi ríkisstjórnarinnar en að ég sé ósáttur við það. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að ég held að margt af því sem hún hefur ætlað sér að gera sé ekki endilega til framfara.

Minnsta áhyggjuefnið er þó auðvitað hvort hún hafi komið færri en fleiri af frumvörpum sínum fram. Mesta áhyggjuefnið er óheppileg blanda aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar sem hefur skapað t.d. úti í samfélaginu mjög snúnar aðstæður hvað varðar möguleikann á að hér náist kjarasamningar. Það blasir við hverjum manni. Báðar hliðar á vinnumarkaði kvarta sáran undan því að ýmislegt í áherslum ríkisstjórnarinnar torveldi þeim að ná saman sín í milli, það bætist svo við að oddvitar ríkisstjórnarinnar tala alveg skýrt, annar í austur og hinn í vestur, þegar kemur að áherslum í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Það dylst engum manni. Það er eitt dæmið af mörgum þar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar tala í kross og er ekki góð staða. Satt best að segja, virðulegur forseti, finnst mér merkilega lítið rætt um það hversu mikil gjá virðist núna vera á milli aðila vinnumarkaðarins og útlitið dökkt í að hér náist kjarasamningar án verulegra átaka og (Forseti hringir.) fórna þeim samfara.