144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í umræðum í gær undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir var hæstv. forsætisráðherra spurður um þingmál sem ríkisstjórnin hefði lagt fram að eigin frumkvæði og upp úr þingmálaskrá eða verkáætlun ríkisstjórnarinnar og gat hann ekki nefnt eitt dæmi um það. Þá ber svo við að hann ásakar hv. þm. Guðmund Steingrímsson sem bar fram spurninguna um að æpa hér í ræðustól. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra gerir þetta þegar hann fær á sig gagnrýnar spurningar í umræðunni. Hann hefur ítrekað ásakað hv. þm. Helga Hjörvar um að æpa og garga hér í ræðustólnum þegar hann spyr hann gagnrýnna spurninga. Nú er það auðvitað þannig að þingmenn ákveða sjálfir hversu hátt þeim liggur rómur í ræðustól. Ég kann reyndar afskaplega vel við það ef menn tala hátt og skýrt þannig að það heyrist vel um allan salinn. En það getur varla talist í verkahring hæstv. forsætisráðherra að sitja á ráðherrabekk og gefa mönnum einkunnir fyrir ræðustíl þegar þeir spyrja gagnrýninna spurninga um störf ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að menn fái efnisleg svör við spurningum sem eru bornar fram með afar kurteislegum hætti, að vísu mishátt, og menn séu ekki að snúa út úr með svona skætingi. Það er einfaldlega þannig að undir þessum lið er gert ráð fyrir því að menn geti fengið efnisleg svör við sínum spurningum og séu ekki í einhvers konar einkunnagjöf frá verkstjóra ríkisstjórnarinnar.

Það vill einfaldlega svo til að það gengur afskaplega lítið undan þessari ríkisstjórn. Auðvitað er það óþægilegt fyrir ríkisstjórnina að heyra það, en hún verður þá einfaldlega að taka á sig rögg og standa sig betur.