144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Hæstv. forseti. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn hv. þingmanns Helga Hrafns Gunnarssonar um sendingu sönnunargagna með tölvupósti kemur fram að ekki hafi þótt ástæða til þess að setja sérstakar verklagsreglur innan lögreglunnar um afhendingu á sönnunargögnum með tölvupósti. Í ljósi úrskurðar Persónuverndar varðandi mál Tony Omos var vakin athygli á að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefði ekki notað neina dulkóðun við sendingu persónuupplýsinga. Það er því ljóst að víða er pottur brotinn í stjórnsýslunni þegar kemur meðhöndlun persónulegra upplýsinga og frjálslega farið með slík gögn á tölvutæku formi.

Forseti. Það eru til leiðir til þess að dulkóða bæði viðhengi og innihald tölvupósta og það ætti að vera forsenda fyrir því að persónulegar upplýsingar séu sendar manna á milli með tölvupósti frekar en bréfleiðis.

Í svari dómsmálaráðherra kemur fram, með leyfi forseta:

„… aðferðin sem notuð er í þeim tilvikum verður ekki reifað hér með vísan til öryggissjónarmiða.“

Hér verð ég að gera athugasemd þar sem það er mikilvægt að ljóst sé hvernig dulkóðun er háttað innan lögreglunnar og hjá öðrum opinberum stofnunum. Það er nauðsynlegt að við fáum að vita hver dulkóðunin er svo hægt sé að senda viðkomandi stofnun dulkóðaða tölvupósta og að stofnanir, svo sem lögreglan, geti átt samskipti bæði sín á milli og við borgara landsins á öruggan máta.

Því legg ég til að stjórnvöld móti sér stefnu um örugg samskipti á internetinu með því að taka upp t.d. eina af þeim dulkóðunaraðferðum sem byggja á gagnsæi og reynslu.