144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni það sem ekki er oft rætt hér í þessum stól en helst rætt í sjávarplássum um þessar mundir en það eru aflabrögðin. Nánast sama hvar er á landinu, alls staðar er landburður af fiski, aðallega boltaþorski sem æskilegastur er til hrygningar að mati fiskifræðinga en einnig smár þorskur ef leitað er sérstaklega. Ekki þykir það fréttnæmt þótt smábátar tvíhlaði sama daginn og gildir það jafnt á netum eða línu, togarar og stóru línuskipin liggja í landi einn til tvo daga með fullfermi og bíða löndunar, rétt eins og loðnubátarnir. Fiskur á hverjum krók uppi í fjöru við Suðurnesin, úti á banka, úti í dýpunum og úti í kanti. Jökuldýpið, Jökultungan, Flákinn, Víkurállinn og norður úr, Húnaflóinn, Skagagrunn og austur úr, Austfirðir eins og þeir leggja sig og suður í Hornafjarðardýpi og grunn og kantar vestur fyrir Eyjar, allt fullt af fiski. Sú var tíðin að kostnaðarsamt var fyrir fiskiskipaflotann að leita uppi þorskinn og allt of mörg skip voru um þá fáu fiska sem fundust. Þess vegna var brugðist við með miklum niðurskurði og skömmtunarkerfið sett á, kvótakerfið.

Nú er vandamálið að fá ekki of mikið í einu og mestur tími fer í að velja réttar tegundir og réttar stærðir eftir því sem markaðurinn kallar á. (Gripið fram í.) Við síðustu mælingu á þorskstofninum komu fram vangaveltur hjá fiskifræðingum um að skortur væri á fæði fyrir þann þorsk sem var að vaxa og að hver einstaklingur þyngdist ekki nóg. Í vetur mældist mikið af loðnu og útbreiðslan nánast hringinn í kringum landið þannig að nú hlýtur að vera nóg æti fyrir stóran þorskstofn til að moða úr.

En hvað með ýsuna? Nú er mikil niðursveifla í ýsustofninum og þá mætti draga þá ályktun að vandamálið væri að finna ýsuna eins og þorskinn forðum, en því miður eða öllu heldur sem betur fer, er því öfugt farið og mestur tími hjá flotanum fer í að forðast ýsu. Ýsan veiðist á svæðum sem hún sást ekki á fyrir nokkrum árum, t.d. fyrir Norðurlandi. Fyrir tveimur árum var nóg að (Forseti hringir.) fara niður fyrir 90 faðma, þá vorum við lausir við ýsuna. Nú er tækifæri til að nýta tæknivæddan (Forseti hringir.) sjávarútveg til að skapa meiri verðmæti fyrir land og þjóð.