144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

um fundarstjórn.

[14:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég átti sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og var á fundi nefndarinnar á föstudaginn var. Ég er mjög hugsi eftir þann fund og ég sakna þess að heyra ekki afstöðu hæstv. forseta til þess sem þar gerðist, því þar var tekið út úr nefndinni frumvarp til laga um breytingu á lögum um áfengi og tóbak. Málunum háttaði þannig að formaður nefndarinnar hafði setið um tækifæri til þess að ná málinu út þegar stóð þannig á spori. Mér finnst hæstv. forseti þurfa að taka afstöðu til þess og leiðbeina okkur sem hér erum um hvað er þinginu samboðið og hvert er hlutverk og verkefni formanns þingnefndar að því er varðar virðingu þingsins í þessum efnum. Þarna er bæði um að ræða ámælisverð vinnubrögð og verklag sem er ekki byggt upp af trausti og samstöðu, þannig að ég mundi vilja biðja hæstv. forseta að fjalla um þá stöðu sem þarna kom upp með einhverju móti til þess að leiðbeina okkur þingmönnum um það hvort þessi vinnubrögð teljist ásættanleg.