144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við stóðum frammi fyrir mjög vondum vinnubrögðum í hv. atvinnuveganefnd fyrir stuttu. Nú er það að ske aftur hér með allsherjar- og menntamálanefnd í þessu máli, menn leita færis að ná máli út þegar aðalmenn eru ekki viðstaddir. Ég tel þetta nokkuð sem hæstv. forseti ætti virkilega að fara að taka upp, grípa inn í og koma í veg fyrir að svona gerist. Það er líka með ólíkindum að þetta sé svo mikið forgangsmál. Það urðu umræður um það hér á dögunum að hæstv. forsætisráðherra gæti ekki nefnt eitt einasta mál sem ríkisstjórnin hefði komið fram. Er þetta það forgangsmál að menn ætla að leggjast flatir fyrir því að ná því út úr nefnd með öllum ráðum? Meiri hluti nefndarinnar ætti að kalla málið inn aftur og láta þá menn sem eru aðalmenn í nefndinni fara betur yfir það og skoða það sem hefur komið upp varðandi (Forseti hringir.) kostnaðargreiningar og annað hvað þetta (Forseti hringir.) þýðir fyrir ríkissjóð.