144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[14:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur til lokaafgreiðslu frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, jöfnunargjald. Þetta eru fögur fyrirheit en ég hef sagt það áður, virðulegi forseti, og afstaða mín kom fram við 3. umr. þessa máls sem og í breytingartillögu, að ég held að enn einu sinni hafi hæstv. iðnaðarráðherra valið verstu leiðina alveg eins og gert var með náttúrupassann sem er nú sem betur fer dauður og mun taka miklum breytingum. Því miður hefur stjórnarmeirihlutinn ekki fallist á að lagfæra tekjuöflunarhliðina hvað þetta varðar og ætlar að halda sig við það að leggja skatt á almenna raforkukaupendur í þéttbýli til að greiða niður í dreifbýli.

Eins og ég sagði áðan eru það fögur fyrirheit að jafna orkukostnað en aðferðafræðin við að ná í þessar 950 milljónir er kolröng. Við í minni hlutanum lögðum til að hálfur raforkuskattur sem á að leggjast af um næstu áramót yrði tekinn í þessar (Forseti hringir.) jöfnunaraðgerðir, en því miður hefur stjórnarmeirihlutinn fellt þær tillögur. Þess vegna munum við þingmenn Samfylkingarinnar sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.