144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[14:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikið réttlætismál og baráttumál að jöfnun verði á dreifikostnaði raforku og jöfnun á húshitunarkostnaði í landinu. En hvernig það tókst að búa til úr því ágreining, eins og hér hefur komið fram, þar sem menn setja þrefalt hærri upphæð á almenna notendur til að hlífa stóriðjunni við að taka þátt í verkefninu er mér óskiljanlegt. Við hefðum getað tekið allt skrefið í einu ef við hefðum gengið fram eins og hugmyndir og tillögur voru um frá þverpólitískri nefnd sem gerði tillögur um hvernig jafna ætti húshitunarkostnað í landinu. Það er það sem við erum að segja með atkvæði okkar með því að sitja hjá, að við missum þarna tækifærið að stíga miklu stærra skref með auðveldari hætti fyrir heimilin í landinu en hér er valið að stíga. Það er það sem þetta snýst um. Við erum sammála um markmiðin um jöfnun húshitunarkostnaðar og dreifingarkostnaðar.