144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra skýrði út fyrir mér og þingheimi hver hans raunverulega stefna er og vilji varðandi það sem hér er kallað breytileg starfskjör en venjulegt fólk kallar bónus. Það var ekki alveg ljóst hvort hann var í reynd að lýsa andstöðu sinni við eigið frumvarp að þessu leyti. Hann var svona fannst mér að reyna að fá þingið til að hafa þetta aðeins upp. Ef hæstv. ráðherra gæti skýrt afstöðu sína aðeins betur.

Hitt vil ég segja að þetta er hið ágætasta frumvarp en mér finnst að mörgu leyti að það sé laust í reipunum. Þetta er mjög mikilvægt fyrir framhald og framvindu okkar efnahagslífs. Mig langar að taka dæmi af áhættunefnd sem er held ég 29. eða 30. gr. Ekki er gert ráð fyrir því að í stórum fjármálafyrirtækjum komi einn maður utan fyrirtækisins í áhættunefndina en til dæmis af þriggja manna nefnd mega tveir vera úr stjórninni. Stjórnin tekur ákvörðun um breytileg starfskjör út frá því hvernig hún getur hámarkað hagnað fyrirtækisins. En þessir sömu stjórnarmenn eiga líka að vera í áhættunefndinni til að reyna að koma því svo fyrir að það stofni ekki fyrirtækinu í háska. (Forseti hringir.) Mér finnst að þetta sé freistnivandi, sé ekki nægilega vel hugsað. Hvað segir hinn ágæti hæstv. fjármálaráðherra um þetta?