144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafna því að málið sé laust í reipunum. Þetta er í öllum meginatriðum byggt á því regluverki sem verið er að innleiða á Evrópska efnahagssvæðinu en við höfum tekið þá þætti sem heyra undir stofnanaþáttinn og látum þá bíða þess að við útfærum það samkomulag sem náðst hefur á Evrópska efnahagssvæðinu um þann þátt sem byggir á tveggja stoða kerfinu. Að öðru leyti erum við að taka upp meginefni þeirra breytinga sem nú eiga sér stað á Evrópska efnahagssvæðinu varðandi fjármálafyrirtæki.

Varðandi starfskjarastefnuna finnst mér mikilvægt að það atriði verði ekki slíkt bitbein hér í þinginu að hinar breytingarnar, sem snerta eiginfjáraukana, bíði eða strandi einhvern veginn í þinginu. Það er ekkert hitamál fyrir mér hvernig við gerum þær breytingar. Mér finnst hins vegar rétt að taka þann kaleik af Fjármálaeftirlitinu og færa það í lög. Mér finnst betra að það standi í lögum.

Hér leggjum við upp með óbreytta 25% reglu en ég velti því hér upp við þingið — mér finnst það ekkert aðalatriði en mér finnst sjálfsagt að við ræðum það, ég er svolítið opinn hvað það snertir — hvort við eigum að heimila hluthafafundi að hækka það hlutfall, að hluthafafundur, eigendur félagsins, geti ákveðið að miða við hærra hlutfall. Og jafnvel þó það yrði 100% þá væri það brotabrot af því sem við sáum í kaupaukum fyrir hrun.