144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get vel tekið undir það með hv. þingmanni að það eru mörg víti að varast frá því sem gerðist hér fyrir hrunið. Um þessi tilteknu atriði, breytileg starfskjör eða kaupaukakerfi, þá er hér verið að leggja upp með ströngustu reglur sem hægt er að finna í Evrópu. Það er ekki hægt að finna strangari reglur en þessa. Við erum með brot af heimild til að vera með kaupauka borið saman við Norðurlöndin. Þar er almenna reglan sú að menn geta verið með 100% ofan á laun í kaupauka. Hér er lagt upp með 25%, sem sagt ¼ af því sem þar er, og það er heldur ekki lagt til hér að hluthafafundur geti hækkað þetta þak en þar er lagt til og er lögfest að menn geti farið í 200%. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það ber að fara afskaplega varlega þegar við liðkum aftur fyrir heimildum fyrir fjármálafyrirtæki til að byggja starfskjarastefnu sína á kaupaukum. Um þetta held ég að sé ágætur sameiginlegur skilningur. Það er hins vegar spurning hvar við eigum nákvæmlega að draga mörkin og hvað við eigum að leyfa hluthafafundi að ákveða þó að almenna viðmiðið sé fest með þessum hætti.