144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við eigum síðar í þessari umræðu að láta það eftir okkur að ræða hugmyndafræðina sjálfa á bak við bónusa og kaupauka og hvað í ósköpunum réttlæti það yfir höfuð að í þessari einu starfsgrein geti menn ekki unnið vinnuna sína fyrir föst laun og verði að hafa einhverjar gulrætur, einhverja bónusa. En ég mun koma inn á það í ræðu minni.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því, af því að nú er ráðherra samkvæmt frumvarpinu að afla sér heimilda til að taka upp reglugerð nr. 575/2013, um varúðarniðurfærslurnar, staðlana o.fl. en geyma heitu kartöfluna um stöðu hinna yfirþjóðlegu stofnana og valdheimildir þeirra hér á landi og hlutdeild í ákvörðunum sem hafa virkni hér á landi. Hvað er unnið með því að skipta þessu upp, ef þetta væri bara hálft ár eða eitt ár? Er ekki alveg eins hyggilegt að taka þann pakka í einu lagi þegar hann kemur? Í öðru lagi langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir því, af því að það hefur gildi hér, hvar er vinnan stödd varðandi undirbúning að nýrri löggjöf um slit fjármálafyrirtækja og verður í þeirri löggjöf að finna einhvern frekari aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka?