144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og komið hefur fram er þetta stórt og mikið og veigamikið mál. Ég skal fúslega játa að ég hef verið að lesa í gegnum það og langar að spyrja einfaldrar spurningar af því að við erum annars vegar að tala um tilskipunina sem er nr. 36, minnir mig, og hins vegar um reglugerð nr. 575. Eins og við vitum er sá eðlismunur á tilskipunum og reglugerðum að tilskipunin er eiginlega forskrift fyrir það hvernig gera á hlutina, innan hvaða marka má gera þetta og innan hvaða marka má gera hitt, en reglugerðin er reglugerð og hana ber að þýða orðrétt. Bara svo maður geti lesið þetta betur, er það þá rétt skilið hjá mér að við þurfum bara hugsa um (Forseti hringir.) reglugerðina í 42. gr. þar sem segir, með leyfi forseta: „Ráðherra skal setja reglugerð sem innleiðir …“, (Forseti hringir.) og að í hinum köflunum öllum sé verið að vísa til (Forseti hringir.) tilskipunar?