144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frumvarp sem er mikið að vöxtum og efnismikið. Það hefur lengi verið beðið eftir því sem kallað hefur verið CRD IV og er alþjóðlegt regluverk búið til til að bregðast við afleiðingum fjármálakreppunnar á alþjóðlegum vettvangi.

Eins og fram kom áðan í máli hæstv. ráðherra þá kalla þessar reglur að sumu leyti á beitingu alþjóðlegra eftirlitsaðila á þvingunarúrræðum gagnvart fjármálafyrirtækjum í þeim löndum sem reglurnar taka til og það hefur reynst okkur allnokkur hausverkur að láta þann þátt regluverksins ganga upp miðað við stjórnarskrá lýðveldisins. Það er þáttur sem við eigum enn eftir að ræða og á eftir að koma hér inn í þingið í haust eftir því sem hæstv. ráðherra segir. Það er mjög mikilvægt að slá strax þann varnagla að við eigum eftir að fara yfir það í þinginu hvort sú útfærsla sem hæstv. ráðherra hefur samið um á alþjóðlegum vettvangi stenst, að áliti þingsins, áskilnað stjórnarskrárinnar um að vald verði ekki framselt úr landi. Ég hef lýst efasemdum um það og skiptir miklu máli að ganga vandlega úr skugga um það á hausti komanda.

Það er ekki þannig að í stjórnarskrá Íslands sé almenn heimild til að fela erlendum aðilum völd yfir íslenskum borgurum eða íslenskum fyrirtækjum. Það var talið að EES-samningurinn á sínum tíma væri algerlega á mörkum þess sem stjórnarskráin leyfði í því efni. Beint ákvörðunarvald alþjóðlegra eftirlitsstofnana gagnvart innlendum fyrirtækjum á innlendum markaði í innlendri starfsemi er auðvitað annars eðlis og yfirgripsmeira en það eftirlitsvald sem talið var samrýmast stjórnarskránni þegar EES-samningurinn tók gildi 1994.

Fyrst vil ég segja að frumvarpið er mikið að vöxtum og það er gagnlegt og felur í sér margháttaðar leiðir til að draga úr áhættu í fjármálakerfinu, auðvelda eftirlit með fjármálafyrirtækjum og draga úr þeirri áhættu að vanfjármögnuð fjármálafyrirtæki sem illa eru í stakk búin til að takast á við áföll séu starfandi á markaði. Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á ákvæðunum í 30. gr. frumvarpsins. Þar er fjallað um fjölbreyttar tegundir eiginfjárauka sem kveðið er á um í sex nýjum greinum sem eiga að heita 84. gr. a til f. Verða lögin nú hálfilllæsilegur og illvinnanlegur bastarður eftir að þessum ósköpum hefur verið klastrað með þessum hætti inn í lagatextann og undirstrikar mikilvægi þess að heildarendurskoðun fari fram á lögum um fjármálafyrirtæki sem allra fyrst, þótt ég geti alveg tekið undir með hæstv. ráðherra um að það er ástæða til að bíða ekki með að leggja þessar efnisreglur fyrir Alþingi og setja í íslensk lög.

Það sem vekur sérstaka athygli og er mikilvægt að nefna er ákvæðið sem á að verða 84. gr. c í lögum um fjármálafyrirtæki, en það er heimild til Fjármálaeftirlitsins að kveða á um, að undangengnum tilmælum fjármálastöðugleikaráðs, að kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki viðhaldi eiginfjárauka. Fjármálastöðugleikaráð á að skilgreina hvað eru kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki og heimildin til að leggja á eiginfjárauka er 2%. Ég tel að það sé mikilvægt að fara yfir það strax í meðförum nefndarinnar hvort ekki séu efnisrök til að marka einhverja almenna stefnu fyrir fram í þessu efni. Við lendum alltaf í þessari umræðu líka gagnvart innstæðutryggingakerfinu og vegna þeirrar auknu áhættu sem við erum í vegna þess að um 90% af fjármálamarkaðnum er í höndum þriggja banka. Þar af leiðandi eru þrír bankar kerfislega mikilvægir eða geta haft kerfislega víðtæk áhrif. Þess vegna eru full efnisrök til þess í sjálfu sér að bíða ekkert með að marka þennan ramma og þessa umgjörð þar til lögin hafa verið sett og full ástæða til að eiga samræður um það við ráðuneytið í nefndinni hvernig það verður gert.

Hér hefur nokkuð verið rætt um starfskjörin. Það er nú ekki langur tími sem maður hefur hér við 1. umr. málsins til að fara yfir þetta efnismikla mál og hefði kannski verið ástæða til að hafa tvöfaldan ræðutíma svo maður gæti vikið að einstökum þáttum. En breytileg starfskjör, eins og kaupaukar heita nú, eru hér mjög til umfjöllunar og það er niðurstaða hæstv. ráðherra við framlagningu frumvarpsins að breyta gildandi regluverki á þann veg að hámarksviðmiðið um 25% sem nú gildir um alla starfsmenn fjármálafyrirtækja gildi bara um afmarkaðan hóp þeirra, þ.e. yfirstjórn, lykilstarfsmenn, starfsmenn eftirlitseininga og aðra starfsmenn sem njóta sambærilegra heildarstarfskjara og yfirstjórn og lykilstarfsmenn. Þetta er ekki auðplokkað út úr texta frumvarpsins en þetta er sem sagt uppleggið.

Ég vil aðeins rifja upp hvernig núgildandi lög marka svigrúm kaupaukakerfa í framhaldi af lagabreytingum sem gerðar voru árið 2010 til að bregðast við hruninu. Þá er það þannig að 25% viðmiðið er gilt fyrir alla starfsmenn, sem sagt hlutfall breytilegra starfskjara af föstum starfskjörum má ekki verða hærra en 25% og það gildir um alla, burt séð frá því hvort viðkomandi starfsmenn hafi eitthvað með ákvarðanatöku fyrir hönd fyrirtækisins að gera eða ekki. Það gildir um jafnt stór sem smá fjármálafyrirtæki, jafnt banka sem auðvitað vátryggingafélög. Þessar reglur banna líka algerlega greiðslu breytilegra starfskjara til starfsmanna eftirlitseininga innan bankakerfisins.

Breytingarnar sem hér eru gerðar eru því mjög víðtækar. Í fyrsta lagi er aflétt öllum hömlum á allan þorra starfsmanna fjármálafyrirtækja. Í annan stað er innleitt að greiða megi breytileg starfskjör til eftirlitsaðila innan stóru bankanna. Og ég hlýt að auglýsa eftir efnisrökum fyrir því að afnema þá reglu sem sett var árið 2010 um að þeir sem starfa að eftirliti innan bankanna megi ekki hafa breytileg starfskjör, megi ekki fá kaupauka. Í umsögninni um þetta ægir eiginlega öllu saman. Þar er talað um, sem er vissulega rétt, að þetta séu íþyngjandi reglur fyrir minni fjármálafyrirtæki. Maður hefur heyrt dæmi um vátryggingamiðlara og hlýtur auðvitað að hugsa með sér: Af hverju þurfa reglurnar að gilda um þá með sama hætti? Mega þeir ekki vera á prósentum, frekar lágu fastakaupi og svo prósentum eftir því hvernig þeim gengur að selja tryggingar? Það er alveg hægt að færa fyrir því gild efnisrök enda ekki um kerfislæga áhættu að ræða og þeir geta ekki með því að vera duglegir að selja vátryggingar kallað einhverja kerfisáhættu yfir þjóðina. Alveg fín og góð og gild rök. En svo er því blandað saman í umsögninni, neðst á bls. 28 og efst á bls. 30, við önnur sjónarmið, um samkeppnisstöðu fjármálafyrirtækjanna gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum í útlöndum o.s.frv. Ég bið menn að fara varlega í að byrja að marka þá stefnu að sérstök ástæða sé til þess að bæta almennt starfskjör í íslenska bankakerfinu sem er algerlega laust við nokkra alþjóðlega samkeppni eins og staðan er núna og hefur leitt til launaskriðs meðal stærri fyrirtækja á undanförnum missirum, okkur öllum til mikilla vandræða og umræðu um kjaramál í landinu til mikilla vandræða. Ég væri til í að velta því fyrir mér hvort við ættum ekki að segja að minni fjármálafyrirtækin, t.d. sérstaklega vátryggingafyrirtækin, ættu að njóta ríkari heimilda til að nýta bónusa fremur en að fara þá leið að afnema allar hömlur í þessu efni eins og hér er gert ráð fyrir og segja bara: Allir starfsmenn mega fá óhefta kaupauka nema yfirstjórn, lykilstarfsmenn, starfsmenn eftirlitseininga og aðrir starfsmenn sem njóta sambærilegra heildarstarfskjara og yfirstjórn og lykilstarfsmenn. Þeir eru bundnir við 25% markið. Það finnst mér býsna langt farið. Þó svo að menn taki ekki stórfelldar ákvarðanir um umgjörð banka þá getur kúltúrinn í bankanum verið orðinn slíkur að menn vilja áhættusækni og af hverju er það gefið að það sé ekki bundið við þá sem eru í framlínunni, sölumenn, gjaldkera, ráðgjafa? Ef fólkið í framlínunni sem veitir ráðgjöf, ef þjónustufulltrúarnir eru á kaupaukum, hvaða áhrif hefur það á framboð á þjónustu og ráðgjöfina sem veitt er? Af hverju á að binda mörk við kaupaukum bara við þá sem eru í efsta laginu og taka ákvarðanirnar um stóru áhættuskuldbindingarnar? Það eru vissulega margir aðrir sem geta haft áhrif gagnvart neytendum og rétt að velta því fyrir sér út frá sjónarmiðum neytendaverndar að það kann að vera ástæða til að hemja kaupauka. Það er ekki bara til að verja ríkið fyrir áhættu, það er ekki bara til að verjast nýju bankahruni. Það er líka til að verjast óhæfilegri áhættusækni banka og yfirgangi þeirra í garð venjulegs fólks.

Ég vil bara slá þennan varnagla. Ég sé engin efnisrök í fyrsta lagi fyrir því að starfsmenn eftirlitseininga innan þessara stóru banka fái yfir höfuð nokkurn tíma kaupauka. Ég sé ekki heldur í annan stað ástæðu fyrir því að létta af öllum starfsmönnum allra fjármálafyrirtækja hömlunum á um 25% og skilja þá eina eftir með 25% hámark sem eru í yfirstjórn og eru lykilstarfsmenn.

Aðeins eitt til viðbótar því að ég sé að ég var aðeins duglegri að tala en ég hafði óttast og ég hef þá tíma til að víkja örlítið að breytingum sem verið er að gera á 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, í 7. gr. Það kemur fram í athugasemdum um 7. gr. að þar er verið að veita heimild til að fylla inn í þá heimild sem komin var í lögin 2010 til Fjármálaeftirlitsins um að setja reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja. Ég vil víkja að því að mér hefði þótt eðlilegt að nýta tækifærið núna til að styðja við þá heimild, útfæra hana betur. Við höfum margsinnis reynt að nýta hana á undanförnum árum, fyrst þegar við felldum þrotabú fallinna fjármálafyrirtækja undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins — Dróma og allan þann ömurlega óskapnað — og ætluðum Fjármálaeftirlitinu á grundvelli 19. gr. að hafa eftirlit með starfsháttum þeirra. Það reyndist mjög erfitt, mjög torsótt. 19. gr. á að vera raunveruleg tæki til að hemja það sem heitir á enskri tungu „predatory behaviour“ eða rányrkju á markaði og mér finnst full ástæða til að þróa og vinna hana áfram og ætla henni t.d. að vera greinin sem gæti hamið smálánafyrirtæki og aðra þá sem eru í óábyrgri lánastarfsemi eða óábyrgri fjármálastarfsemi án þess að uppfylla kannski skilmála laganna um fjármálafyrirtæki að öðru leyti. Ég hefði kosið að við notuðum tækifærið fyrst hér er verið að opna þessa grein og lögin að styrkja ákvæði 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, auka enn heimildir Fjármálaeftirlitsins til að hafa eftirlit með aðilum sem ekki eru beinlínis eftirlitsskyldir á grundvelli góðrar viðskiptavenju og ganga ríkar eftir því að góð viðskiptavenja sé virt á fjármálamörkuðum.