144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu um það stóra þingmál sem hér er lagt fram, um þennan mikla bálk. Nú háttar svo til með þetta tiltekna þingmál að hér er byggt á þáttum sem ekki hafa enn þá verið teknir upp í EES-samninginn.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þingmann sem sérfræðing í Evrópurétti, því að það er það sem við ræðum hér, ekki satt? Hvaða bragur finnst hv. þingmanni vera á slíkri nálgun að við erum í raun að taka upp í íslenskri löggjöf þætti sem enn hafa ekki fengið þá yfirferð sem EES-samningurinn kveður á um, því að hér er sannarlega um réttarbót að ræða að einhverju leyti? Það má svo sem leiða líkur að því að eitthvað sem hér er undir sé þeirrar gerðar að við mundum setja það inn í íslenskan rétt að öllu jöfnu. En að því er varðar samspil við EES-samninginn og nákvæmlega það frumvarp sem hér er lagt fram vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað finnst honum um slíka nálgun, þ.e. um formið á því, hvernig frumvarpið ber að, um aðdragandann og vinnuna sem að baki liggur áður en ákvörðun er tekin um að leggja það fram með þessum hætti sem stjórnarfrumvarp?