144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Svarið er nú ósköp einfalt. Almennt séð held ég að hægt sé að segja að það sé ekki góður bragur að því að innleiða Evróputilskipanir fyrr en þær hafa verið leiddar inn í EES-samninginn með réttum hætti, þ.e. ef menn meina eitthvað með því að við eigum að hafa einhver áhrif á innleiðingarþáttinn, því að hann er að sumu leyti eftir þegar ekki er búið að ganga frá ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og skuldbindingin er orðin þjóðréttarlega bindandi fyrir Ísland.

Það er líka hætta á því þegar þessi leið er farin að menn gefi sér það að jafnframt liggi fyrir þegjandi samþykki um þá þætti málsins. Þess vegna tók ég það fram í ræðu minni áðan að þó að ég væri sammála efnisþáttum málsins að mörgu leyti og teldi margt af því til bóta væri það algerlega óljóst í mínum huga enn hvort sú útfærsla sem valin hefur verið af hálfu hæstv. fjármálaráðherra í samvinnu við aðra fjármálaráðherra um eftirlitsvald hinna fjölþjóðlegu stofnana samrýmist stjórnarskrá Íslands. Ég hef um það verulegar efasemdir og get fært fyrir því gild rök og hlakka til að gera það úr þessum ræðustóli í nokkuð löngu máli. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að menn geri því ekki skóna við séum búin að samþykkja þetta og að allar veifur hafðar hér uppi um það, þingið er ekki búið að samþykkja það fyrirkomulag og er ekki skuldbundið að því að samþykkja það.

Hins vegar verður þó að segja hæstv. fjármálaráðherra til afbötunar að auðvitað er Alþingi „sovereign“ og getur leitt í lög hvaða vitleysu eða hvaða snilld sem er eftir því sem Alþingi sjálfu þóknast. Þar af leiðandi getur Alþingi auðvitað samþykkt evrópskrar reglur alveg eins og amerískar eða ástralskar reglur eða reglur frá einhverju öðru Langtíburtistan-landi ef það svo kýs, en það hefur enga þjóðréttarlega þýðingu svo fremi sem það hefur ekki verið tekið upp í samninginn.