144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við þeirri spurningu er mjög einfalt: Nei, þetta samrýmist ekki þeirri Evrópustefnu. En ríkisstjórninni til afbötunar verð ég þó að segja að ekkert annað sem hún hefur gert síðasta árið samrýmist heldur þeirri Evrópustefnu sem hún setti þó fram. Hún sagði til dæmis að setja ætti aukið afl í hagsmunavörslu á vettvangi EES-samningsins. Við höfum séð að allar fjárlagatillögur sem lúta að eflingu sendiráðsins í Brussel hafa ekki verið samþykktar. Við höfum séð að ekki er neitt gert til að auka möguleika þingsins til að sinna hagsmunavörslu á vettvangi Evrópuþingsins og þannig mætti lengi telja. Sú stefna var því, held ég, bara til að leggja á hana eitthvert raunsætt mat, aðeins veikburða fíkjulauf sem menn breiddu yfir fullkomna nekt ríkisstjórnarinnar í alþjóðamálum eftir að hún var komin með Evrópumálin í uppnám með tillögunni um að draga aðildarumsóknina til baka fyrir ári síðan og eftir að hin raunverulega utanríkisstefna sem hún var mynduð um, sem snerist um ástríkt faðmlag við Pútín og við önnur skringileg, fjarlæg heimsveldi, var komin í algerar ógöngur fyrir réttu ári síðan, eins og menn muna.

Það sem maður hefði vænst af ríkisstjórn sem telur sig vilja fylgja skeptískri Evrópustefnu er að menn vönduðu mjög til hagsmunavörslunnar í þessu máli, gerðu mjög ríkar kröfur, sérstaklega um hinn stjórnskipulegan þátt og létu hann þátt ráða framgangnum. Og þegar hinn stjórnskipulegi þáttur væri örugglega í lagi kæmu menn fyrst með efnisreglurnar sem byggja ættu á hinum stjórnskipulega þætti.

Hér er komið með efnisreglur og við munum standa frammi fyrir því sem þing að ríkisstjórnin verður með undirlægjuhætti sínum eiginlega búin að selja burtu frumburðarréttinn hvað það varðar að það mun þurfa að framfylgja þessum reglum. Eina spurningin er hversu víðtækt vald til alþjóðastofnananna verður (Forseti hringir.) og hvaða feluleikir verða búnir til til að fela það að í rauninni (Forseti hringir.) taka alþjóðastofnanirnar ákvarðanir en ekki íslenskar stofnanir.