144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek spurninguna þannig að hv. þingmaður sé að spyrja hvað ég mundi vilja sjá í þessu. Það er alveg ljóst að hér er verið að opna öll fjármálafyrirtæki og öll vátryggingafélög og eina undantekningin frá því er að yfirstjórnin ein megi vera með 25% bónusa.

Í dag er það þannig að allir starfsmenn allra fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga eru bundnir af 25% bónusum. Ég mundi vilja athuga, vegna þess að ég finn alveg þennan tímans þunga nið úr fjármálaráðuneytinu, menn vilja mjög gjarnan losa um þessa bónusa og ég er svolítið næmur fyrir þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á þetta kerfi frá fyrirtækjum sem eru ekki kerfislega mikilvæg, eins og vátryggingafélögunum, svo dæmi sé tekið, hvort við gætum fetað okkur í þær áttir að segja ókei, að sum afmörkuð fjármálafyrirtæki geti nýtt sér þetta, en t.d. stóru bankarnir þrír sem eru kerfislega mikilvægir og kasta býsna stórum skugga yfir hið íslenska fjármálalíf hvað varðar tapsáhættu og eru auðvitað þær stofnanir sem hverra fall gæti leitt til verulegrar áfalla fyrir þjóðina í heild, að þar giltu aðrar reglur og þar væri takmarkaðra svigrúm. Ég geri til dæmis greinarmun á því hvort um er að ræða starfsmann í framlínu hjá einum af þremur stóru bönkunum, sem er að selja fólki einhverjar afurðir og gæti þess vegna, ef hann væri á bónusum, viljað selja það sem ber mesta áhættu í för með sér, þó að forstjórinn græði ekki á því þá græðir hann á því, og svo hins vegar vátryggingamiðlara sem kannski er síður í stöðu til að skapa áhættu fyrir samfélagið, þó að það geti auðvitað valdið því að fyrirtækið hans fari á hausinn eða slíkt, þá ylli það sjaldnast stórfelldri áhættu fyrir samfélagið.