144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er að vonum að nokkur umræða verði um þetta mál. Þetta er talsverður bálkur. Hér er í frumvarpi upp á 45 lagagreinar og á 24 blaðsíðum verið að fjalla um mjög mikilvæga hluti þar sem eru leikreglurnar og öryggisreglurnar í fjármálakerfinu. Allt er þetta í ljósi nýlega fenginnar og dýrkeyptrar reynslu manna af þessu kerfi, ekki bara á Íslandi heldur víðast hvar á byggðu bóli. Það eru fróðlegir textar t.d. hér í greinargerðinni fyrir áhugasama að lesa þar sem vottar fyrir talsverðri sjálfsgagnrýni eða játningar má kalla það. Að vísu eru það nafnlausir sérfræðingar á vegum Evrópusambandsins sem þar eru færðir til sögunnar af höfundum greinargerðarinnar en þeir gera þó nokkrar játningar um hvernig þetta kerfi hafi bilað.

Hér er eins og ágætlega hefur komið fram í framsöguræðu ráðherra og andsvörum verið að taka fyrstu skrefin, taka hluta af þessu nýja regluverki Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar sem aftur byggir á hinni alþjóðlegu vinnu kenndri við staðinn Basel í Sviss, Basel III staðlinum um eiginfjárkröfur, áhættumörk o.s.frv. hjá fjármálafyrirtækjum. Það hefur þegar komið fram að hér er verið að leggja til innleiðingu á stórum hluta þessa regluverks áður en þetta hefur verið tekið upp í EES-réttinn. Það er óvenjulegt og kannski sérstaklega í ljósi þess að það er alkunnugt af hverju sú innleiðing hefur tafist. Það er vegna þeirra stjórnskipulegu vandamála sem eru samfara því að hinar evrópsku eftirlitsstofnanir eiga að fá þarna yfirþjóðlegt vald býsna afdráttarlaust og geta tekið ákvarðanir varðandi lögaðila, sem hafa áhrif á lögaðila í einstökum löndum. Það er eða verður algerlega nýtt á Íslandi þrátt fyrir allar teygjur á stjórnarskrárrammanum sem frægar eru allt frá 1994 þegar menn töldu að strekkja mætti á stjórnarskránni til að koma EES-samningnum sjálfum þar inn. Síðan hefur ýmislegt bæst við, Schengen, yfirþjóðlegt vald í flugeftirlitsmálum og mörgu slíku og þetta hefur bankað á rammann. En hér er komið að alveg nýjum vegamótum. Menn telja sig að vísu hafa fundið hjáleið að fara tveggja stoða EES-lausnarleiðina og þar með megi náttúrlega áfram teygja aðeins á rammanum, en ég á eftir að sjá hvernig þessu verður fyrir komið þannig að það teljist ganga upp að evrópskar stofnanir, stofnanir Evrópusambandsins fái yfirþjóðlegt vald á Íslandi og geti tekið ákvarðanir sem hafa bein áhrif á lögaðila. Við erum ekki bara að tala um á ríkið sem slíkt eða löggjöf ríkisins eða réttarbætur til almennings, ívilnandi eða jákvæðar, nei, við erum að tala um ákvarðanir sem gætu verið neikvæðar, sem gætu haft bein neikvæð áhrif á starfsemi fyrirtækja á fjármálamarkaði. Það hlýtur að vera talsverður handleggur að koma því öllu fyrir innan ramma óbreyttrar stjórnarskrár.

Hér er um það fjallað hvernig veikleikarnir í regluverkinu hafi væntanlega átt sinn þátt í því að leiða til óhóflegrar og vanhugsaðrar áhættutöku sem aftur hafi leitt til áfalla í fjármálakerfinu og skapað kerfislæg vandamál í Evrópu eins og talað er um á mjög embættislegu máli í greinargerð frumvarpsins. Auðvitað er verið að tala um þá gríðarlegu krísu sem fjölmörg lönd búa við eftir að fjármálakerfið brást meira og minna og kostað hefur óhemjufjármuni skattborgaranna víða um lönd, þar á meðal á Íslandi, að bregðast við því hruni og því tjóni. Sennilega eru engir verr settir fyrir utan Íslendinga hvað það varðar nema ef vera skyldi Írar sem eru sennilega með þjóðhagslegan kostnað af svipaðri stærðargráðu vegna fjármálakerfis sem fór algerlega á hliðina, brást gersamlega með skelfilegum afleiðingum. Og mér finnst einkenna þetta mál, eins og svo mörg önnur viðbrögð, að það er verið að reyna að lappa upp á regluverkið, styrkja einhverja áhættuvarnir og stýringar, draga úr hættulegum hvötum en það er allt innan ramma óbreyttrar starfsemi fjármálafyrirtækjanna. Það er ekki verið að endurskoða lög og leikreglur í grundvallaratriðum, það er ekki verið að stokka þetta kerfi almennilega upp og það er ekki einu sinni verið að fjarlægja að mér finnst með neinum hreinum ásættanlegum hætti bakábyrgð ríkisins, lesist: skattgreiðenda, á því þegar áföll verða. Jú, ég get sagt með jákvæðum vilja að verið sé að draga úr líkunum á því, vonandi verið að minnka reikningana einhvern tíma í framtíðinni þegar næsta áfall gengur yfir. En því miður held ég að við verðum að horfast í augu við það að hér ganga menn ekki svo vasklega til verks að maður geti verið bjartsýnn á að einhverju leyti sambærilegir hlutir komi ekki aftur. Og viðleitni kerfisins til að síga aftur í sama farið er náttúrlega mjög sterk, mjög áberandi og þess gætir á mörgum sviðum.

Það er ágætt að taka þaðan stökkið í að ræða starfskjarastefnuna og bónusana, kaupaukana sem heita svo í gildandi lögum en á nú að fara að fela undir þessu nýja fallega hugtaki, breytileg starfskjör. Það er ekki einu sinni talað lengur um laun eða kjarasamninga heldur föst starfskjör og breytileg starfskjör. Það er tæknimálið hér um launastrúkturinn í fjármálaheiminum. Nú er það vissulega rétt og fagnaðarefni að hér er að uppistöðu til eða að talsverðu leyti viðhaldið þeim stífu takmörkunum sem sett voru í lög árið 2010 og undirbyggð síðan með reglum Fjármálaeftirlitsins sem tóku mjög myndarlega á bónusum og öðru slíku í fjármálakerfinu og skárra væri það nú í ljósi þess sem Íslendingar höfðu horft upp á á árinu á undan. En ég vil ræða grundvallarhugsunina á bak við þetta sem slíkt: Af hverju þurfa að vera sérstakir kaupaukar í fjármálakerfinu? Af hverju þarf sérstaka hvata, bónusa til að menn standi sig vel í vinnu þar en ekki við að kenna börnum eða lækna sjúka? Ætlumst við ekki til þess að fagfólk á öðrum sviðum, ýmist með líf okkar eða uppeldi og þroska barnanna okkar í höndunum, vinni sína vinnu vel og af metnaði þótt það fái ekki sérstakan bónus fyrir? Jú, við gerum það. Það er hin almenna regla á vinnumarkaði að reyna að sjálfsögðu að gera vel við fólk og tryggja því góð og umsamin gagnsæ laun sem séu vel rífleg til að lifa góðu, sómasamlegu lífi miðað við verðlag í viðkomandi landi. En ég skrifa einfaldlega ekki upp á þá hugmyndafræði að það að sýsla með pappíra og iðulega alls konar gerninga tengda þeim, þurfi hvata til, að búa út einhverjar afurðir og fínheit sem mjög hélt innreið sína í þennan heim fyrir 15–25 árum þegar framvirkir og afturvirkir samningar og vafningar og stöðutökur fram og til baka urðu að nýjum fjármálaafurðum, ægilega fínt. Það eru ýmsir sem trúa á það að heimurinn muni algerlega stöðvast ef þetta sé ekki allt saman til en sumt af þessu er beinlínis stórkostlega skaðlegt og hefur verið líkt við efnahagsleg gereyðingarvopn af mönnum sem þekkja vel til vegna þess að það gírar upp áhættusæknina í þessu kerfi, magnar uppsveiflur og á ekkert skylt við raunverulega og nauðsynlega fjármálaþjónustu og miðlun fjár milli þeirra sem eru með mikið af því og leggja það inn í banka og hinna sem þurfa tímabundið að fá lánað fé. Það er mjög mikilvægt verkefni, grunnþjónusta fjármálakerfisins sem snýr að því að geyma fé með tryggum hætti og miðla fé, hún er mikilvæg, t.d. milli kynslóða, milli þeirra sem eru á sparnaðarskeiði í sínu lífi eða rekstri og hinna sem eru á fjárfestingarskeiði og uppbyggingarskeiði í sínu lífi og sínum rekstri, það er mikilvæg fúnksjón en hún þarf ekki á þessu öllu að halda. Því miður finnst mér að menn séu ekki bara á Íslandi heldur allt of mikið alþjóðlega að kikna undan því að taka á ýmsum stórhættulegum hlutum sem flestir eru tiltölulega nýir af nálinni og héldu innreið sína með nýfrjálshyggjugræðgiskapítalismanum og sérstaklega þegar hann náði undirtökunum í fjármálaheiminum með þeirri bólumyndunargræðgishvöt sem þar er innbyggð.

Hvað er verið að gera? Það er verið að setja þessu öllu saman skorður. Það er viðurkennt að græðgin má ekki ganga of langt. Það er viðurkennt að áhættusýkin má ekki verða of mikil. Það er viðurkennt að það er ekki gott að bankar reki sig fyrst og fremst með skammtímagróða í huga en ekki langtímagróða eins og t.d. er talað um á bls. 28 í greinargerðinni, að það hafi leitt til aukinnar áhættutöku starfsmanna og hvað þá innan fjármálafyrirtækja til skammtímaávöxtunar á kostnað langtímaávöxtunar. Hvernig var þetta? Voru menn ekki að gera upp og skrúfa upp uppgjörin? Og ekki bara á ársfresti, nei, ársfjórðungslega fóru menn í æfingar í íslenska bankakerfinu til að skrúfa upp afkomuna til að hún kæmi betur út á hverjum fjórðungi fyrir sig og auðvitað tengdust síðan bónusarnir þessu og urðu himinháir einmitt árin áður en bankarnir fóru á hausinn. Hæstu bónusarnir voru greiddir 2007, síðasta heila árið sem íslensku bankarnir voru í rekstri. Voru þeir mjög traustar stofnanir þá? Nei. Og er nóg að draga aðeins úr þessum hvötum? Eigum við Íslendingar að vera eitthvað feimnir við það í ljósi okkar reynslu, að setja okkur þarna strangar reglur? Ég segi nei. Þess vegna er ég ekki sáttur við það í hvaða mæli er verið að slaka frá gildandi reglum um kaupauka. Það er verið að rýmka þær með því að þrengja hópinn niður í æðstu stjórnendur bankanna einna sem verða bundnir af reglunum, eingöngu þeir sem koma að ákvarðanatöku sem telst geta tengst áhættu bankanna verða settir undir reglurnar, ekki aðrir starfsmenn. Nú er ég ekki að segja að það sé líklegt að strúkturinn verði þannig í bönkunum að óbreyttir starfsmenn fái hærri bónusa en bankastjórarnir, það væri a.m.k. óhefðbundið, en þannig verður gengið frá þessu ef frumvarpið nær óbreytt fram að ganga.

Ég tel líka að við eigum að viðhalda íslenska banninu á það að þeir sem sinna innra eftirliti og áhættueftirliti í bönkunum geti verið á kaupaukum. Það er sjálfsagt að borga þeim góð laun en ég skil ekki hvers vegna menn vilja líka hafa þá inni í einhvers konar hvatakerfi. Það segir sig bara sjálft að það býður hættunni heim og á ekkert erindi þangað frekar en ég tel í reynd að obbinn af þessu eigi inn í lög. Ég er ekkert óskaplega hræddur um að það verði landauðn og fjöldaflótti úr íslenskum bönkum þótt við höfum strangari reglur um þetta en eru t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Og hvort á að hafa forgang, að læra af reynslunni og að taka viðmið á íslenskum vinnumarkaði þegar kemur að launamálum í bönkum eða fjármálafyrirtækjum eða horfa alltaf til útlanda og segja: Þetta er svona hjá milljónaþjóðunum og við verðum að apa eftir því? Þannig er þetta. Réttlætingarnar voru oft og tíðum ekki sterkari en þær að bara allir hinir gerðu þetta. Þess vegna höfum við líka bónusa, en er það nógu gott? Eru það nógu sterk efnisleg pólitísk rök? Ég tel ekki.

Langalvarlegasti skavanki þessa kerfis er fólgin í ósköp einföldum hlut og hann er það að kapítalískur nýfrjálshyggjufjármálamarkaður í þróuðum ríkjum hefur byggst upp á þeim forsendum að einkavæða skefjalausan gróða í anda þess að græðgin sé efst boðorða en þjóðnýta töpin. Þannig er móverkið byggt upp í reynd. Það er lærdómurinn af þessu og það er ekki hægt. Það er brjálæðislegasta og óréttlátasta kerfi sem hægt er að hugsa sér að menn geti í góðum árum eða meintum góðum árum skammtað sér gróða algerlega eins og þeim sýnist, mokað kaupaukum í sjálfa sig og hlaupið svo til ríkisins og skattgreiðenda þegar á bjátar og látið þá bera tjónið. Það er sannkallaður kapítalismi andskotans, fyrirgefðu, frú forseti, og slíkt fyrirbæri á ekki að líða. Það verður að fara í miklu róttækari uppstokkun á þessu. Ég átta mig alveg á því að við Íslendingar breytum kannski ekki einir heiminum en a.m.k. eigum við að vera í fararbroddi með það að stíga þau skref sem við teljum skynsamlegustu og líklegust til að fyrirbyggja að það gerist nokkurn tíma aftur á Íslandi sem hér gerðist 2008. Það er bara skylda okkar. (Forseti hringir.) Það er skylda okkar við okkur sjálf, núlifandi kynslóð Íslendinga í landinu og kynslóðir framtíðarinnar.