144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er þá væntanlega ánægður með að búið er að borga um 85% af Icesave með eignum gamla Landsbankans eins og til stóð allt frá vorinu 2009, enda áttu einstaklingar, líknarfélög, félagasamtök, sveitarfélög, eftirlaunasjóðir og ýmsir slíkir þar inni peninga. Að sjálfsögðu gleður það mann þegar kemur í fréttum að tvö sveitarfélög í Skotlandi hafi nú loksins endurheimt peningana sína sem þau töpuðu eða óttuðust að tapa á íslensku bönkunum.

Eiga menn að gleðjast yfir því og fagna, eru menn hetjur ef þeim tekst að koma því þannig fyrir að eftirlaunasjóðir lögreglumanna í Mið-Englandi tapi fé, eða fátæk sveitarfélög í Skotlandi fái á baukinn út af íslenskum bönkum? Er það hetjuljóminn sem hv. þm. Pétur Blöndal vill að svífi yfir Icesave-vötnunum? Verði honum að góðu. Ég er ekki með í því, tek litla gleði og hef aldrei tekið mikla gleði af því að þúsundir og tugþúsundir og hundruð þúsunda af einstaklingum og fyrirtækjum og félögum stórtöpuðu á því að eiga viðskipti við íslenska banka og mörg þúsund milljarðar kr. brunnu upp og urðu að engu og stærsti einstaki reikningurinn þar liggur í Þýskalandi.

En við hv. þm. Pétur Blöndal erum sammála um að það sé vont kerfi að einkavæða gróða og þjóðnýta töp. Þá er verkefnið að koma í veg fyrir það. Ég held að það þurfi meira til, þó að viðleitnin sé ágæt sem er að finna í þessu evrópska regluverki og við Íslendingar gætum gert hluti, það er alveg ljóst að við gætum t.d. farið í formlegan, lagalegan aðskilnað viðskiptabankastarfsemi, venjulegrar bankastarfsemi, móttöku innlána og útlána til einstaklinga og það sem við almennt þekkjum öll og skiljum sem bankastarfsemi, og braskið og fjárfestingaræfingarnar, haft það bara annars staðar, algerlega utan nokkurra ábyrgða ríkisins. Vegna þess að það sem alltaf (Forseti hringir.) reynist niðurstaðan að menn reyni að bjarga, það eru innstæður almennings þegar erfiðleikar verða í bönkum.