144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að umræðan um Icesave er dálítið viðkvæm, en það gleymdist að gerðar voru kröfur um vexti, töluvert háa vexti ofan á Icesave. Þeir sem höfðu lagt peninga og átt viðskipti við íslensku bankana í Bretlandi og Hollandi gerðu það vegna þess að þeir vildu græða, þeir vildu fá hærri vexti en voru svona almennt í bankakerfinu þar. Það var græðgi sem olli þessu, þeir fá jú endurgreitt, en ekki með vöxtum. Það er ekki bakábyrgð íslenska ríkisins á þeim kröfum.

Hv. þingmaður kom ekki inn á það hvort um væri að ræða kerfislæga galla í öllu kerfinu, sem mér finnst að hv. nefnd sem fær málið til skoðunar þurfi að skoða sérstaklega, og ekki heldur inn á laun sjómanna, bónusa og annað slíkt og þá umræðu af hverju menn skuli ekki bara sætta sig við dagvinnulaun.